föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Strandveiðar: Hámarksafli 800 kíló þorsks í hverri veiðiferð

26. maí 2009 kl. 12:08

Reglur um strandveiðar hafa litið dagsins ljós í frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi í morgun. Þar kemur fram að hámarksafli á bát skuli vera 800 kíló af þorski og handfærarúllur skuli vera tvær að hámarki ef einn maður er um borð en mest fjórar ef fleiri eru á bátnum.

Aðeins er leyfilegt að fara í eina veiðiferð á dag og má hún ekki standa lengur en 12 tíma. Óheimilt er að stunda veiðar á laugardögum og sunnudögum. Meðafli ufsa skal aldrei vera meiri en 15% og ýsu 3%.

Landinu er skipt í fjögur svæði: Landssvæði A: Frá Snæfellsnesi til Skagabyggðar er úthlutað 1.3156 tonnum. Landssvæði B: Frá Skagafirði til Grýtubakkahrepps 936 tonn. Landssvæði C: Þingeyjasveit til Djúpavogs 1.013 tonn. Landssvæði D: Hornafjörður til Borgarbyggðar 690 tonn.

Leyfi eru veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi báts er skráð og skal öllum afla veiðiskipsins landað innan þess landsvæðis. Sama báti verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á veiðitímabilinu.

Þau skip sem fá leyfi til handfæraveiða samkvæmt þessu kerfi mega ekki stunda aðrar veiðar frá útgáfu leyfisins og út fiskveiðiárið.

Sjá nánar frumvarpið þar sem skilmálar strandveiðanna eru kynntir, HÉR.