föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Talið að 211 hið minnsta hafi fallið

svavar hávarðsson
3. nóvember 2018 kl. 07:00

Nýlega var haldin minningarathöfn um borð í varðskipinu Þór í tilefni þess að 75 ár eru liðin frá því að þáttaskil urðu í orrustunni um Atlantshaf og herir bandamanna náðu undirtökum. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og James G. Foggo, aðmíráll v

Vilja að minning þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni verði heiðruð

Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um að heiðra minningu þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni. Alls eru skrifaðir fyrir tillögunni 23 þingmenn.

Í tillögunni er þess farið á leit að ríkisstjórnin setji fram áætlun um að heiðra minningu þessara Íslendinga. Þau eru nafngreind og er heildarfjöldi Íslendinga sem féll af völdum stríðsátaka metinn um 211 eða 0,17% af íbúafjölda landsins í lok árs 1940. Langflestir þeirra fórust á sjó.

Verði þetta gert er þess beðist að ríkisstjórnin hafi samráð við sérfræðinga við gerð áætlunar sem verði borin undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en í apríl 2019.

211 hafi fallið

Í greinargerð tillögunnar segir að rekja megi megnið af mannfalli Íslendinga á stríðsárunum til árekstra og árása á íslenska skipaflotann þótt allnokkur íslensk skip hafi farist langt frá Íslandsströndum.

„Við Íslendingar og bandamenn allir stöndum í þakkarskuld við þá sem lögðu líf sitt að veði í þessum siglingum fullkomlega meðvitaðir um áhættuna. Fórnir þeirra sem fórust voru miklar og er löngu tímabært að heiðra minningu þeirra varanlega líkt og lagt er til í þingsályktunartillögu þessari,“ segir í greinargerðinni.

Af heimildum má álykta að heildarfjöldi Íslendinga sem féll af völdum stríðsátaka sé um 211 manns eða 0,17% af íbúafjölda landsins í lok árs 1940.

Hversu margir féllu af völdum stríðsátaka hefur þó ekki verið full rannsakað og ekki talið útilokað að frekari rannsóknir fræðimanna á skráðum orsökum dauðsfalla leiði í ljós að þessi sorglega tölfræði geti tekið breytingum.

Fordæmi víða að finna

Segir jafnframt að löngu sé tímabært að skipa þessu fólki varanlegan sess í sögu þjóðarinnar, en með hvaða hætti það verður best gert er ríkisstjórnarinnar að meta í samráði við sérfræðinga á sviði sagn- og safnafræði, til dæmis.

„Víða í Evrópu, til að mynda í Frakklandi, hafa minnismerki um fallna verið reist í þeim bæjum sem viðkomandi einstaklingar voru frá, t.d. við kirkjur eða í kirkjugörðum. Einnig hefur verið farin sú leið að reisa styttu eða listaverk sem minnisvarða þar sem nöfn allra þeirra sem létust eru talin upp, eins og gert er á Víetnam-minnismerkinu í Washington. Loks hafa margar þjóðir farið þá leið að tileinka árlega sérstakan dag minningu þessa fólks,“ segir í niðurlagi.