miðvikudagur, 16. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þrekvirki á Skeiðarársandi

Guðsteinn Bjarnason
29. desember 2018 kl. 12:00

Þýskir sjómenn um aldamótin 1900. Rudolf Bojahr, stýrimaður á Friedrich Albert, er vinstra megin á myndinni.

Einar Magnús Magnússon segir afrek þýskra skipbrotsmanna á Skeiðarársandi veturinn 1903 hafa verið einstakt. Hann vinnur nú að gerð kvikmyndahandrits um strand þýska fiskiskipsins Friedrichs Albert.

Síðla kvölds í janúarmánuði árið 1903 strandaði þýska fiskiskipið Friedrich Albert á Skeiðarársandi. Áhöfnin vissi ekkert hvar næstu mannabyggðir var að finna. Mennirnir þvældust um sandana í ellefu daga, kaldir og hraktir og nánast matarlausir umkringdir ófærum jökulám og jöklum og víða var hulin sandbleyta sem gat reynst lífshættuleg. Þrír þeirra fórust.

Á endanum tókst níu manns úr áhöfninni að komast til Orrustustaða á Brunasandi, lítils sveitabæjar þar sem fátækur bóndi bjó ásamt eiginkonu og dóttur. Þar var hlúð að þeim og íslenskur læknir þurfti við afar frumstæðar aðstæður að taka limi af nokkrum þeirra vegna kalsára.

Einar Magnús Magnússon vinnur nú að ritun kvikmyndahandrits um strand þýska fiskiskipsins Friedrichs Albert á Skeiðarársandi í janúarmánuði árið 1903. Í loks síðasta árs veitti Kvikmyndasjóður handritastyrk til verksins.
Einar Magnús starfar hjá Samgöngustofu. Hann hefur undanfarin ár unnið að þessu verkefni í frístundum, en hann hefur meðal annars leikstýrt þáttunum Aðför að lögum um Geirfinns- og Guðmundarmálið,

Fylgjast má með framvindu verkefnisins á vefsíðu þess, www.svartursandur.is. Þar kemur meðal annars fram að Þjóðverjar hafa sýnt því töluverðan áhuga. Fjallað hefur verið um það í fjölmiðlum, bæði dagblöðum, sjónvarpi og útvarpi auk þes sem ráðgert er að hingað til lands komi menn frá Radio Bremen að gera heimildarmynd um þetta verkefni.

Einar Magnús Magnússon. MYND/HAG

Eitt merkasta afrek sögunnar
„Þetta er án efa eitt merkilegasta afrek sem nokkru sinni hefur verið unnið,“ segir Einar Magnús um þá miklu þrekraun sem mennirnir lentu í þarna á sandinum.

Hann hefur meðal annars aflað sér heimilda í Þýskalandi og rætt við afkomendur bæði skipstjóra og stýrimanns skipsins.

„Ég hef unnið að mörgum heimildarmyndum, bæði leiknum og annars konar fréttaskýringarmyndum og öðru slíku, og í fyrstu þarna hugsaði ég með mér að þarna væri efni í leikna heimildarmynd.“

Hann tók síðan að kafa ofan í öll gögn sem liggja fyrir hér heima á Ísland og fljótlega varð honum ljóst að þessi saga uppfyllti öll skilyrði leikinnar kvikmyndar, og hefur þegar fengið styrk frá Kvikmyndasjóði til ritunar slíks handritstil þess. Hann vonast til þess að kvikmynd geti orðið að veruleika innan fárra ára. Þetta sé tvímælalaust efniviður í stórmynd.

Lét vekja menn á 20 mínútna fresti
„Þetta er svo móralskt sterk saga, hún hefur svo sterk skilaboð um það hvernig við eigum að vera sem manneskjur hvert við annað. Og líka hvernig skipstjóranum tekst að halda utan um hópinn og stýra mönnunum til þess verkefnis að halda lífi, sem er meira en að segja það.“

Skipstjórinn hét Georg Ludwig Büschen. Hann var 34 ára gamall þegar skip hans fórst við suðurströnd Íslands. Skipið var gufuknúinn togari, smíðaður árið 1898 og gerður út frá Geestemünde sem nú tilheyrir Bremerhaven.

„Á nóttunni vakti skipstjórinn og lét vekja mennina á 20 mínútna fresti. Hann lét þá standa upp og hreyfa sig svo þeir frysu ekki í hel. Þú getur ímyndað þér að þegar þú ert orðinn örmagna af þreytu, jafnvel svo mikið að þú óskir þér bara þess að fá að deyja, að vera þá vakinn upp og rifinn á fætur sem þó á endanum bjargar lífi þinu. Það verður ákveðin líkamleg og andleg togstreita þarna held ég og raunir þessara manna eru svakalegar. Enda það varð að aflima fimm þeirra, og það var gert við mjög frumstæðar aðstæður.“

Lifðu á skonroki og svínafitu
Einar Magnús hefur aflað sér gagna í Þýskalandi og reynt að komast í samband þar við afkomendur skipverjanna. Meðal þeirra sem hann hefur hitt er Gerold Büschen, afkomandi bróður skipstjórans, en sá átti í fórum sínum 65 blaðsíðna frásögn langalangafa sínsfrænda síns sem hann skrifaði þremur árum eftir atburðina. Skipstjórinn greinir þar ítarlega frá hrakningum þeirra um sandana, atburðirnir eru skráðir dag fyrir dag og jafnvel frá klukkustund til klukkustundar.

„Hann lýsir því hvernig þeim tókst að halda áfram, hvað gerðist þegar mennirnir voru að deyja í sandinum, hvernig þeir smíðuðu flekann og hann meira að segja teiknaði mynd af flekanum, og þar kemur í ljós að þetta er eiginlega bátur sem þeir voru náðu að smíða. Þeir lifðu á skonroki og svínafitu þegar þeir voru að ráfa um sandinn, en það dugði þeim skammt. Þeir notuðu svínafituna ekki bara sem næringu heldur tókst þeim að þétta bátinn með því að bera hana á viðinn. Þennan bát drógu þeir síðan 22 kílómetra um sandinn, reiknast mér til, og réru honum síðan yfir Núpsvötn, eina kröftugustu jökulá landsins. Þeir náðu að fara þrír saman í hverri ferð, en það var mjög umhleypingasamt á þessum tíma. Mögulega hefðum við getað þreytt þorran þarna í ellefu daga að sumri til, en það hefði verið erfitt.“

Komu skríðandi upp að húsinu
Mönnunum níu tókst loks eftir ellefu daga hrakningar að komast að Orrustustöðum, litlum bæ sem ekki er lengur til en stóð á ofanverðum Brunasandi.

„Þeir komu skríðandi upp að húsinu,“ segir Einar Magnús. „Þar mæta þeir þessari manngæsku, þessari góðvild bláfátæks fólks, bænda sem settu ekkert fyrir sig að fórna öllu sem hægt var til að bjarga lífi þessara ókunnugu manna. Ég held að við mættum taka þetta okkur til fyrirmyndar í dag.“

Einar Magnús lagði það á sig að prófa að sofa úti við sambærilegar aðstæður í septembermánuði fyrir rúmu ári.

„Þá fór hitastigið niður í 3 til 4 gráður. Ég var vel klæddur og var með dýnu sem einangraði mig frá köldum sandinum. Ég held að ég hafi náð að sofa í svona eina og hálfa klukkustund, þá var það ekki mögulegt lengur sökum kulda og raka.“

Breiðabólstað breytt í spítala
„Það er líka svo fallegt í þessu að Þjóðverjarnir báru ekki mikið traust til íslensks sveitafólks þegar kom að því að gera miklar aðgerðir. Þeir báðust undan því, skipverjarnir. Þeir nánast grátbáðu um að þetta yrði ekki gert, að matarborðinu á Breiðabólsstað væri breytt í skurðarborð. Þeir voru hræddir náttúrlega við sýkingar og annað en það sem er svo magnað í sögunni er hvernig þessar hugmyndir þeirra eða fordómar, breyttust skjótt í aðdáun .“

Einar Magnús segir að þeim hafi líklega ekkert litist á Þorgrím Þórðarson lækni þegar hann var kominn á Breiðabólstað eftir sex daga hrakninga yfir jökulárnar og sandana, rúmlega 200 kílómetra leið.

„Eflaust var hann illa þrifinn og illa til hafður þegar þeir litu hann fyrst augum eftir langa og erfiða för. En hann var svo mikill snillingur hann Þorgrímur. Það fer engum sögum af öðru og árangur aðgerðanna vitnar um það hversu vel hann og Bjarni Jensson læknir stóðu að aðgerðunum og hvernig kona Bjarna, Sigríður Jónssdóttir stóð að að öllu varðandi smitgát og sótthreinsun hússins. Breiðabólstað var bara á örskömmum tíma breytt í spítala.“

Fjórir mannanna fengu síðan að fara frá Breiðabólstað eftir aðeins nokkra sólarhringa.

„Þeir voru svo sem ekkiert fullsprækir svo sem, en þá voru þeir sendir til Víkur og fóru þaðan með skipi til Reykjavíkur og síðan til Bremerhaven Geestemünde þar sem þeir áttu heima. Eftir voru þessir fimm sem voru aflimaðir. Lengst var sá sem báðir fætur voru teknir af rétt neðan við hné, því það kom svokallaður kolbrandur sem ég held að sé bara dautt holdí sárið, drep, þannig að það þurfti að framkvæma aftur fleir aðgerðir. Þorgrímur læknir var þarna yfir mönnunum í sextíu daga.“

Stýrimanninum kennt um
Einar Magnús hefur einnig átt í tölvupóstsamskiptum við afkomendur stýrimannsins, sem hét Rudolf Bojahr, og segir Einar þau samskipti hafa verið bæði sorgleg og hjartnæm.

„Það kemur nefnilega fram í sjóprófum sem voru haldin í Þýskalandi eftir þessa atburði að sökinni er mjög komið á stýrimanninn. Sagt er að hann hafi ekki lóðað eða sem sagt dýptarmælt eins oft og hann hefði átt að gera og þegar hann loks hefði ákveðið að dýptarmæla hefði það verið um seinan.“

Skipstjórinn gerir hins vegar í sínum endurminningum ekkert úr því að stýrimanninum hafi verið um að kenna.

„Hann tileinkar skrif sín minningu þessara þriggja manna sem fórust, og einn þeirra er einmitt stýrimaðurinn. Hann hvarf á sandinum, á fimmta eða sjötta degi minnir mig, og hefur aldrei fundist.“

Heimur sjómennskunnar
Það sem Einari Magnúsi þykir einna athyglisverðast þegar þessir atburðir á Skeiðarársandi eru skoðaðir er að sjómennskan er með vissum hætti heimur út af fyrir sig, með eigin sögu og lýtur að nokkru leyti eigin lögmálum.

„Það er eins og Þjóðverjarnir sem ég hitti þarna úti voru að segja, að samfélag sjómanna er alveg sérstakt og það er alveg sama hvaðan þeir koma, þeir skilja og skynja hver annan kannski með allt öðrum hætti en fólk af ólíkum starfsvettvangi gerir.“

Þannig eigi sjómaður hér á landi svo margt sameiginlegt með sjómanni í Þýskalandi eða þess vegna einhvers staðar í Austur-Asíu á einhverjum fjarlægum stað í heiminum. Milli þeirra ríki gagnkvæmur skilningur sem aðrir eigi kannski erfitt með að átta sig á.

„Saga þessara þýsku sjómanna er í rauninni ekkert önnur en saga margra íslenskra sjómanna, jafnvel þó að á þessum tíma hafi engu verið saman að líkja varðandi aðstæður þeirra. Það var eiginlega ekki til neitt skip í eigu Íslendinga á þessum tíma. Við vorum á opnum árabátum, sexæringum og í besta falli áttæringum sem okkur þótti þóttu eiginlega vera bara skip þess tíma.“

 

Frásögn Guðlaugs sýslumanns í Ísafold

Laugardaginn 14. febrúar, tæplega mánuði eftir strandið, birtir reykvíska dagblaðið Ísafold frásögn Guðlaugs Guðmundar sýslumanns á Kirkjubæjarklaustri af atburðunum.

„Í gær kl. 2 e. h. kom hér sendimaður frá Orustustöðum á Brunasandi og skýrði mér frá, að þangað væru komnir 8 eða 9 strandmenn þýzkir,“ skrifar Guðlaugur, en frásögn er rituð 31. janúar. „Þeir höfðu komið þar kl. 9 1/2 í gær morgun; mundi hafa strandað úti fyrir Skeiðarársandi, austan Hvalsíkis. — Þeir væri þjakaðir mjög og allflestir mikið skemdir af kali.“

Guðlaugur segist hafa komið að Orustustóðum um sjöleytið að kvöldi 30. janúar. „Héraðslækninn tók eg með mér á leiðinni, frá Breiðabólstað. Hann rannsakaði þagar skemdirnar á mönnum þessum og telur 3 af þeim lítið skemda, en 6 mikið kalda og þó 2 eða 3 til stórskemda. Kölin mest á fótum og höndum. Búið var að mestu leyti að þíða kölin upp í köldu vatni og snjó, þegar eg kom austur eftir.“

Eftir að hafa fengið upplýsingar frá skipstjóranum um strandstaðinn segir Guðlaugur það vera hinn „hættulegasta og versta stað, sem til er hér með ströndinni allri.“

Gangandi mönnum alófært
Nálega fimm mílur danskar séu frá sjó upp til jökuls eða fjalla, „þar sem sumarvegurinn liggur,“ en dönsk míla er ríflega 7,5 kílómetrar. Þó sé „enn lengra til mannabygða á hvora hönd sem farið er frá strandstaðnum — auk þess gangandi mönnum alófært, því Hvalsíki er öðru megin, auk fleiri ósa, og Skeiðarár-útföllin hinu megin, en vötnin nú alauð, enginn mannheldur ís á þeim.“

Guðlaugur segir mennina þrisvar sinnum hafa „vaða vestur yfir vatnaflákann, bæði fram á sandinum í beina stefnu vestur af strandinu, og eins ofar, uppi undir jökli, en alt af orðið að hverfa frá. Vötnin óvæð. Við strandstaðinn gerðu þeir sér skýli úr tunnum, sem skolaði úr skipinu, settu þær, í hring. mokuðu sand að og breiddu segl yfir. Í byrginu voru þeir 3 nætur alls.“
Hann segir mennina hafa haft litlar vistir og kviðið því að verða hungurmorða. Stýrimaðurinn af skipinu hafi ætlað sér að brjótast einn síns liðs vestur yfir Hvalsíki

„Hann hefir ekki sést síðan, og hefir eflaust druknað í vötnunum eða helfrosið á eyrunum í þeim.“

Þann 28. janúar hafi hópurinn enn lagt af stað „vestur að vötnunum og höfðu þeir smíðað sér dálítinn timburfleka til að fljóta á yfir dýpstu álana og drógu hann vestur að Hvalsíkinu.“

Daginn eftir hafi þeir verið komnir að síkinu og þá sau þeir til manna fyrir vestan sÍkið, sem þar fóru um, á leið á fjörur hérna megin vatnanna. Þeir gátu þó eigi á neinn veg vakið athygli á sér, en vegalengd svo mikil á milli, að köll heyrðust ekki, enda vindur við vestur. Þetta mun þó hafa hert á þeim að tefla á fremsta hluun með að komast vestur yfir.“

Tveir af mönnunum urðu þar úti, „helfrusu báðir, annar austan við síkið, háseti af skipinu, en hinn skildu þeir við dauðan á eyri vestan til í vatnaflákanum; það var 1. vélstjóri af skipinu.“

Þar býr fátækur einyrki
Eftir að þeir komust yfir fundu þeir slóðina eftir sleðann sem þeir sáu og röktu sig eftir henni fram á kvöld þess 29.

„Um nóttina hófðust þeir við undir bátflaki, er þeir hittu fram á sandinum, um 3/4 milu danska frá bæjum, og komu svo, eins og áður er frá sagt, þann 30. jan. kl. 9 1/2 f. h. að Orustustöðum á Brunasandi. Þar býr fátækur einyrki.“

Guðlaugur segir óhætt að fullyrða að allt sem gert til að hlúa að þessum þjökuðu mönnum. „Skipstjóri segir, að skipið hafi alt verið brotið, þegar hann skildi við það, siglutré, þilfari, stjórnpalli o. fl., skolað burt og skipsskrokkurinn að mestu leyti sokkinn í sandinn.“

Guðlaugur segist hafa sent menn af stað bæði til að kanna strandstaðinn og leita þeirra tveggja sem fórust.

„Sjúklingunum hef eg komið fyrir hjá héraðslækninum. Hvort þeir 3 menn, sem minst eru akemdir, verða ferðafærir undir eins, er enn eigi hægt að segja með vissu. En hinir 6 eiga án efa fyrir höndum nokkuð langa legu.“

Niðurstaða sjóprófs í Bremerhaven

Sjópróf var haldið í Bremerhaven 24. mars 1903, en þá voru fjórir skipbrotsmannanna komnir til Þýskalands. Sjóprófinu var samt frestað þangað til hægt væri að ræða beint við alla þá sem komust lífs af. Þann 2. júní, fjórum mánuðum rúmlega eftir að atburðirnir á Íslandi gerðust, var svo sjóprófi haldið áfram, en þá voru allir mennirnir nema einn komnir til Þýskalands. Sá var kyndarinn Fritz Wutzo, sem enn var ekki orðinn ferðafær, taka hafði þurft báða fætur af honum fyrir neðan hné.

Niðurstaða sjóprófsins var sú að stýrimanninum, Rudolf Bojahr, var að hluta kennt um strandið: „Vakthafandi stýrimaður, sem er látinn, ber að því leyti sök á strandinu að hann lét undir höfuð leggjast að mæla dýptina í tæka tíð.“

Hins vegar er skipstjóranum hrósað fyrir að hafa tekist að koma mönnum sínum til byggða við afar erfiðar aðstæður þar á sandinum: „Undir forystu Büschens skipstjóra, sem sýndi mikla aðgát og þrek, komust þeir sem lifðu af til byggða þar sem íslenska þjóðin tók á móti þeim og hlúði að þeim af alúð.“

Sérstakar þakkir eru einnig færðar bóndanum á Ormstöðum, Guðlaugi sýslumanni, héraðslækninum og Thomsen, þýska konsúlnum í Reykjavík, „eða fulltrúa hans“ eins og það er orðað í niðurstöðum sjóprófsins.

Þá er beinlínis hvatt til þess að Íslendingar setji upp skýli þarna á sandinum fyrir skipbrotsmenn sem síðar gætu meir staðið í sömu sporum og skipverjarnir af Friedrich Albrecht: „Fagna bæri því ef komið yrði upp skýlum á íslensku ströndinni til að koma í veg fyrir þjáningar af þessu tagi.“

Meginorsök slyssins er þó rakin til veðurfars og aðstæðna: „Orsök strandsins má eftir þessu einkum rekja til þess að óvenju sterk tilfærsla hafstraums – e.t.v. vegna sunnanhvassviðris sem hafði verið ríkjandi – í áttina að ströndinni sem er flatlend, óbyggð, vitalaus og þar með mannsauganu ógreinanleg.“

Hvað stýrimanninn sérstaklega varðar segir: „Einnig hefði verið hægt að koma í veg fyrir strandið ef stýrimaðurinn hefði lóðað dýpið í tæka tíð, í samræmi við fyrirmæli skipstjórans, það er að segja áður en fjórir tímar voru liðnir í þessu glórulausa veðri. Að láta þetta undir höfuð leggjast var bæði gáleysislegt og lítt sjómannslegt, þar eð hann vissi að leiðin lá meðfram ströndinni og skipstjórinn hafði gefið honum fyrirmæli um að lóða dýpið snemma, og með þessu varð stýrimaðurinn, sem er með 1. stigs skipstjórnarréttindi frá árinu 1900, valdur að strandinu.“

Þann 19 janúar klukkan 17:00 var skipið statt 5 sjómílur frá ströndinni og 15 sjómílur austur af Portlandi, en svo kölluðu erlendir sjómenn Dyrhólaey iðulega.

Büschen skipstjóri fór úr brúnni klukkan 18:00 og gaf þá Bojahr stýrimanni þau fyrirmæli að strax og hann skyggni versnaði ætti hann að mæla dýptina, og tók sérstaklega fram að betra væri að lóða dýptina „hundrað sinnum of oft en einu sinni of sjaldan“.