þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tíu vinsælustu sjávarréttir í Bandaríkjunum: Þorskurinn aðeins í áttunda sæti

8. desember 2009 kl. 13:19

Þótt Bandaríkjamenn séu þekktir fyrir að hafa mikið dálæti á kjöti hefur fiskneysla þeirra aukist. Rækja er vinsælasta sjávarafurðin þar í landi en þorskurinn hefur hrapað í vinsældum og er nú aðeins í áttunda sæti.

Á vef Intrafish má sjá niðurstöður úr athugun sem gerð var um vinsælustu sjávarrétti í Bandaríkjunum á árinu 2008. Þar kemur fram að hver Bandaríkjamaður borðaði að meðaltali 16 pund af fiskafurðum það ár eða 7,2 kíló. (1 pund = 0,45 kg). Þetta er reyndar 2% samdráttur milli áranna 2007 og 2008. Engu að síður neyta Bandaríkjamenn mun meira af fiski nú en þeir gerði á 10. og 9. áratug síðustu aldar.

Bandaríkjamenn eru sólgnir í rækjur og hefur rækjan verið vinsælasti sjávarréttur þeirra allt frá árinu 2001. Meðalneyslan árið 2008 var 4,1 pund á mann.

Túnfiskur er traustur í sessi í öðru sæti. Meðalneysla á mann er 2,8 pund.

Lax er í mikill sókn og er hann í þriðja sæti. Meðalneyslan var 1,58 pund á mann árið 2000, var komin í 1,8 pund árið 2007 en fór í 2,4 pund í fyrra.

Ufsi er í fjórða sæti. Líkast til á hann gengi sitt því að þakka að hann er vinsælt hráefni í fiskborgara. Í fyrra var meðalneyslan 1,3 pund á mann.

Tilapia er í fimmta sæti með 1,19 pund á mann.

Fengrani (Catfish) er í sjötta sæti með 0,92 pund á mann.

Krabbar eru í sjöunda sæti með 0,61 pund á mann.

Bandaríkjamenn borðuð aðeins 0,44 pund af þorski að meðaltali á mann á árinu 2008 sem er helmingur af því sem þeir hesthúsuðu árlega á síðasta áratug. Þorskurinn hefur því fallið niður í áttunda sætið.

Flatfiskur, aðallega lúða, er í níunda sæti með 0,43 pund á mann.

Í tíunda sætinu er svo skelfiskur með 0,42 pund á mann.