mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tryggja þyrfti rétt Íslands til deilistofna í aðildarviðræðum

29. janúar 2009 kl. 12:02

Andstaða sjávarútvegsins við inngöngu Íslands í ESB byggist m.a.  á því að þá myndu landsmenn missa samningsforræði yfir svokölluðum deilistofnum, en það eru þeir fiskistofnar kallaðir sem ganga inn og út úr lögsögunni og nýttir eru í sameiningu með öðrum þjóðum. Veiðar úr deilistofnum hafa skilað allt að 30% heildaraflaverðmætis Íslendinga á ári. Samningar eru í gildi um suma þessara stofna en aðra ekki.

Fjallað er um stöðu Íslands gagnvart ESB varðandi deilistofnana í Fiskifréttum í dag. Rætt er við Stefán Ásmundsson skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins en hann hefur um langt skeið verið aðalsamningamaður Íslands í viðræðum við aðrar þjóðir um deilistofna.

Í viðtalinu segir Stefán segir m.a.:

,,Reglan í Evrópusambandinu hvað varðar veiðirétt einstakra aðildarríkja byggist á margnefndum hlutfallslegum stöðugleika sem gengur út frá veiðireynslu. Það yrði því samningsatriði að fá viðurkenndan þann hlut sem við höfum þegar áunnið okkur [ í samningum um deilistofna]. Úr því að ESB er búið að samþykkja hlut Íslands áður í [ þeim ] samningum, þótt hann byggi hugsanlega ekki á veiðireynslu, þá er ekki óraunhæft að ætla að það muni standa.

Hins vegar gæti orðið torsóttara að byggja á einhverju fleiru en veiðireynslu þegar kemur að fiskistofnum sem Ísland hefur ekki gert samninga um, eins og til dæmis makrílnum. Þar hefur Evrópusambandið eingöngu viljað láta Ísland fá eitthvert lítilræði. Ef Ísland gerðist aðili að ESB áður en gengið hefði verið frá makrílsamningum við okkur yrði að vera búið að fá niðurstöðu í það mál í aðildarviðræðum,” segir Stefán. 

Sjá nánar umfjöllun um deilistofnana í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.