fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tveggja ára loðna fyrir norðan og vaðandi makríll fyrir vestan land

2. júlí 2009 kl. 12:31

Loðnutorfur fyrir norðan land og vaðandi makríll vestan við landið hljóta að teljast góðar fréttir fyrir íslenskan sjávarútveg. Hvort tveggja mun eiga við rök að styðjast að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarveiðisviðs HB Granda.

Þessar upplýsingar koma fram á vef HB Granda. ,,Við höfum haft af því spurnir að færeyska skipið Norðborg, sem er við veiðar á norsk-íslensku síldinni, hafi að undanförnu leitað að síld í veiðanlegu magni fyrir norðan land, innan íslensku landhelginnar. Ekki vantar að síld er að finna á mjög stóru svæði en hún hefur verið mjög dreifð og í lítt veiðanlegu magni. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að skipið hefur rekist á nokkrar ágætar loðnutorfur og benda sýni úr aflanum til þess að um sé að ræða tveggja ára loðnu eða sama árgang og væntanlega mun koma til með að bera upp veiðina á næstu vertíð,” segir Vilhjálmur en hann segir einnig að fréttir af makrílgengd fyrir vestan landið veki mönnum bjartsýni.

  ,,Við höfum það eftir Birgi Stefánssyni á Hval 9, að áhöfn skipsins hafi orðið vör við mikið af makríl vestur af landinu, allt frá fjöru og langt út á haf. Veiðar í flottroll eru bannaðar á þessu svæði og því ekki um það að ræða að makríllinn komi í togveiðarfæri en við höfum spurnir af því að trillukarlar hafi verið að fá makríl á handfæri við Hellnanes,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, ennfremur á vef HB Granda.

Sjá www.hbgrandi.is