mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tvö skip HB Granda leita að laxsíld á Reykjaneshrygg

6. maí 2009 kl. 15:00

Tvö uppsjávarskip HB Granda eru nú í rannsóknaleiðangri á Reykjaneshrygg í leit að laxsíldartegundum. Ef laxsíldin finnst í nægilegu magni er þess vænst að veiðar á henni geti hafist strax í vor, að því er Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávardeildar HB Granda, sagði í samtali við Fiskifréttir.

Skipin sem hér um ræðir eru Faxi RE og Ingunn AK. Þau fóru út í gær og hafa kannað svæðið suðvestur með Reykjaneshrygg og eru nú komin utarlega í íslensku landhelgina. Um borð eru fulltrúar frá Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun. Enn sem komið er hafa skipin ekki orðið vör við neina laxsíld. Rétt er að taka fram að gulldeplan, sem veidd var í vetur, er ekki laxsíldartegund.

Vilhjálmur sagði að leitinni yrði haldið áfram suður með Reykjaneshryggnum eitthvað út fyrir landhelgismörkin. ,,Ef eitthvað finnst geri ég ráð fyrir að leyfi fáist til tilraunaveiða. Þetta er viðleitni til að finna verkefni fyrir uppsjávarskip okkar frá þeim tíma sem kolmunnaveiðum lýkur og þar til veiðar á norsk-íslensku síldinni hefjast,“ sagði Vilhjálmur.