fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Um brottkast

15. janúar 2018 kl. 13:00

Umgengni hefur tekið algjörum stakkaskiptum á undanförnum árum

Þótt  það sé orðið ærið langt síðan undirritaður kom úr sínum síðasta túr sem skipstjóri þá tel ég mig hafa forsendur til að leggja orð í belg eftir þrjátíu og þriggja ára sjómennsku á fiskiskipum árunum 1968 - 2001.

Í allt of mörg ár framan af sjómennskuferlinum var almennt viðhorf eða mottó fiskimanna til veiðanna einfaldlega: því meira því betra. Menn fengu ákveðið kikk út úr því að innbyrða risahol og allt of lítið hugsað um afleiðingarnar. Viðhorf  og viðbrögð í fiskvinnslunni á þessum tíma drógu dám af mismunandi gæðum hráefnisins.  Menn gerðu sér enga rellu yfir því þótt umtalvert magn færi á hjallana þar sem ástand fisksins bauð einfaldlega ekki upp á aðrar lausnir.

Smám saman fór þetta að breytast og vafalaust vöknuðu margir við vondan draum í upphafi veiða í Smugunni þar sem fyrrnefnt mottó, því  meira því betra, réði ríkjum með tilheyrandi afleiðingum í lélegu hráefni og brottkasti.

Í kjölfar þessa tímabils verða viðhorfsbreytingar í átt til betri umgengni um auðlindina. Þar kemur margt til. Áhafnir fyrstu frystitogaranna komu af  ísfisktogurum, þar sem magnhugsun hafði almennt ráðið ríkjum. Það blasir við að slíkt gekk ekki upp á frystitogurum. Reyndar tel ég  sama viðhorf hafi gilt hjá öllum fiskimönnum, burtséð frá því hvaða veiðarfæri komu við sögu. Kvartanir kaupenda og neytenda í kjölfar aukinnar gæðavitundar í okkar helstu viðskiptalöndum kölluðu á gjörbreytt vinnubrögð í öllu ferlinu allt frá því fiskurinn er veiddur þar til hann er borinn á borð neytenda. Allir þeir sem að þessu koma eru algjörlega meðvitaðir um að ekki er um neinn afslátt að ræða varðandi ferskleika og gæði afurða í sjávarútvegi um þessar mundir.

Makríllinn
Alvarlegt bakslag kom í annars jákvæða þróun í umgengni um auðlindina fyrstu ár makrílveiða hér við land, bakslag sem náði hámarki árið 2011 þegar allir sem vettlingi gátu valdið hópuðust á makrílveiðar. Flest þessara skipa voru á engan veginn útbúin til þessara veiða. Þau höfðu mikla veiðigetu, mjög takmarkaða geymslugetu og allt of lítil afköst til að sinna veiðiskap af þessum toga af einhverju viti. Ofangreind skip sem á annað borð voru með veiðarfæri sem virkuðu fengu í allt of mörgum tilvikum allt of stór hol sem menn náðu ekki að nýta nema af takmörkuðu leiti.

Með öðrum orðum vanhugsaðar stjórnlausar veiðar í boði þáverandi stjórnvalda. Einu skipin sem höfðu forsendur til þessara veiða voru þau sem eru útbúin til þess að innbyrða mikinn afla og sem kældur er á skömmum tíma og skilað er í land sem fersku og verðmætu hráefni. Þannig hefur verið staðið að þessum veiðum síðustu árin og með þeim hætti hefði átt að gera það frá upphafi.

Núverandi ástand
Sem forsvarsmaður samtaka skipstjórnarmanna í langan tíma hef ég í gegn um tíðina verið í nánum samskiptum við fjölda sjómanna og lagt mig eftir að fylgjast með því sem er á döfinni á hverjum tíma. Ég fullyrði að umgengni hefur tekið algjörum stakkaskiptum þótt ég geri mér grein fyrir að veiðar munu aldrei verða stundaðar með þeim hætti að brottkast verði 0% af því sem inn fyrir kemur, enda ýmsir orsakavaldar sem þar liggja til grundvallar.

Þau myndbrot sem tekin voru um borð í Kleifaberginu eru af ýmsum toga. Lengstu klippurnar eru frá makrílveiðum sem því miður áttu sér stað og fjölmargir sjómenn urðu vitni að, en heyra nú sögunni til. Annað myndbrot sýnir illa farinn smákarfa ásamt bolfiski, aðallega ufsa sem verið er að henda. Allir sem verið hafa á togara vita að fáist stórt karfahol í brælu þar sem bolfiskur slæðist með þá er ákaflega hætt við að sá fiskur sé  illa farinn og jafnvel ónýtur eftir návígi við karfann.

Lögin segja að hirða eigi skemmdan fisk þannig að í því samhengi þá er sá gjörningur vissulega ámælisverður þótt ég sé  ósammála fiskistofustjóra um að þar sé verið sé að henda góðum fiski sem ekkert sé að og taka eigi veiðileyfið af slíkum skipstjórnarmönnum.

Ömurlegast er þó myndbrot þar sem verið er að henda 3 tonnum af hausuðum þorski þar sem ekki er hægt merkja að neitt sé athugavert við fiskinn og að þetta hafi, að sögn myndatökumannsins, verið gert samkvæmt skipun skipstjórans til að rýma fyrir nýrri fiski.  Þetta er einfaldlega lögreglumál sem verður að upplýsa. Persónulega hvarflar ekki að mér að trúa þessari fullyrðingu.

Það er mikið afrek og gríðarleg vinna sem liggur að baki því að skila ár eftir ár á land afurðum úr 10 þúsund tonna afla upp úr sjó. Að halda því fram að slíkur árangur náist með því að stunda samhliða skipulagt brottkast og subbugang er að mínu mati víðs fjarri raunveruleikanum. Hér meðfylgjandi eru upplýsingar um afla 16 togara á síðastliðin fimm ár. Kleifabergið er þar nafngreint en hitt eru ísfisk- og frystitogarar af handahófi. Eins og sjá má þá er Kleifabergið  ýmist efst eða með efstu skipum í flestum af okkar helstu nytjastofnum auk þess að vera afgerandi í aukategundum. Fullyrðingar í þá veru að keyrt hafi verið á einni fisktegund til að auka afköstin standast einfaldlega ekki.

Árni Bjarnason er formaður Félags skipstjórnarmanna