sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umsvif aukast stöðugt á Stöðvarfirði

28. desember 2017 kl. 15:00

Bjarni Stefán Vilhjálmsson, hafnarvörður á Stöðvarfjarðarhöfn. MYND/GUGU

7.500 tonnum landað á síðasta kvótaári


Umsvif aukast stöðugt við höfnina í Stöðvarfirði. Auk heimabátanna leggja þar upp línubátarnir Gísli Súrsson GK og Auður Vésteins SU frá Grindavík, Kristján HF 100 og Steinunn HF 108 frá Hafnarfirði, Dögg SU 118 frá Hornafirði og Sandfellið frá Fáskrúðsfirði. Verið var að landa úr Hornafjarðarbátnum Dögg SU þegar blaðamann bar að garði. Bjarni Stefán Vilhjálmsson, hafnarvörður og verkstjóri þjónustumiðstöðvar, var í óða önn að skrá niður vigtaðan afla og mátti vart vera að því að líta upp úr tölunum.


gugu@fiskifrettir.is

Fimm línubátar landa reglulega á Stöðvarfirði. Auk Einhamarsbátanna eru það Steinunn, Kristján og Dögg SU. Auk þess landa þar þrír sæbjúgnabátar, þ.e. Klettur, Þristur og Sandvíkingur. Veiði hefur gengið vel hjá sæbjúgnabátunum og umtalsverðu magni verið landað í Stöðvarfirði.

„Fiskirí hjá línubátunum er að aukast. Þeir eru farnir að koma inn með tíu tonnin og þaðan af meira. Svo eykst þetta enn meira. Það er hins vegar dauft yfir þessu á sumrin en þá er  makríll og síld hér fyrir utan og fiskurinn hefur svo mikið æti að hann tekur ekki beituna á línunni,“ segir Bjarni Stefán.

1.000 tonn á mánuði

Hann segir annars mikið að gera alla daga ársins og mun meira en fyrir tveimur eða þremur árum. Það sem breyti miklu er lengri viðvera Grindavíkurbátanna og Hafnarfjarðarbátanna. Áður voru þeir jafnan farnir suður í október en nú fari þeir ekki fyrr en í febrúar.

„Vertíðin byrjar svo seint fyrir sunnan. Hérna eru menn ennþá í 20 tonnum meðan þeir eru ekki nema í 10-15 tonnum fyrir sunnan. Þegar sjómannaverkfallið stóð yfir síðasta vetur, það lengsta í sögu Íslands, bárust hingað um 1.000 tonn á mánuði frá fimm línubátum. Það var alveg sama hvar þeir lögðu línu. Það var alls staðar mokfiskirí. Auður tvílandaði  einu sinni, tæpum 15 tonnum í fyrra skiptið og 21 tonni í seinna skiptið. Höfnin var algjörlega undirlögð af körum. Og þegar þeir komu allir inn á sama tíma var vinnuplássið ekki mikið,“ segir Bjarni Stefán.

Þarf að stækka aðstöðuna

Hann segir að þessi auknu umsvif hafnarinnar séu mikilvæg líka fyrir allt plássið. Þarna reka til dæmis tvær konur greiðasölu og fá allan mannskapinn til sín í mat. Svo leigja sjómennirnir húsnæði á staðnum og Einhamar keypti gamla pósthúsið á staðnum og breyta því í gistiaðstöðu fyrir áhafnir Auðar Vésteins og Gísla Súrssonar. Þar halda menn til í brælum. Einhamar keypti einnig skemmu á hafnarsvæðinu þar sem byggðakvótinn er unninn. Fyrirtækið fékk úthlutað 160 tonnum frá Byggðastofnun. Lengi framan af var aflinn handflakaður en síðastliðið sumar var keypt flökunarvél.

„Það er orðið aðkallandi að stækka aðstöðuna hérna á höfninni. Bátar útgerðanna stækka og nánast allir að fara yfir í 30 tonna bátana. Það er bara engin aðstaða fyrir þá. Þeir eru tveir en gætu hugsanlega verið fjórir að hámarki.“

Þriðji 30 tonna báturinn bætist við á næsta ári því Fiskvinnslan Kambur ehf., sem gerir út krókabátana Steinunni og Kristján, hefur samið við Trefjar um nýjan bát sem leysir bæði Steinunni og Kristján af hólmi. Kambur keypti síðastliðið vor bolfiskvinnslu Eskju á Óseyrarbraut í Hafnarfirði. Auk þess bætist senn við þriðji 30 tonna báturinn í flota Einhamars.

„Hér er gott að vera. Það er stutt á miðin í allar áttir. Fiskgegnd er mikil og í grunninn er aðstaðan góð. Það er nóg vatn á öllum kantinum og aðstaða til að geyma beitu. En það vantar stækkun á höfninni svo þessir stærri bátar komist fyrir. Við höfum heyrt af því að fleiri bátar vilja vera hér en komast að.“

Aðstaða fyrir 8 30 tonna báta

Bjarni Stefán hefur búið á Stöðvarfirði í tólf ár og lætur vel af sér. Hann er fæddur í Suðursveit og er náskyldur sjálfum Þórbergi rithöfundi Þórðarsyni. Bjarni Stefán segir að það sem einkenni Stöðvarfjörð núna sé stöðug aukning í umsvifum í sjávarútvegi. Þannig var aukning í lönduðum afla á síðasta fiskveiðiári 1.900 tonn miðað við kvótaárið á undan. Alls var landað um 7.500 tonn sem er umtalsvert magn fyrir ekki stærri stað en Stöðvarfjörð þar sem um 200 manns búa.

„Það sem hjálpaði okkur var sameiningin við Fjarðarbyggð sem býr að einum sterkasta hafnarsjóð landsins. Ef við værum einir á báti eins og Breiðdælingar hefðum við að sjálfsögðu ekki bolmagn til þess að halda við höfninni. Eftir sameiningu voru flotbryggjurnar stækkaðar og unnið hefur verið að viðhaldi. Þá er nýbúið að byggja aðstöðu fyrir sjómenn með sturtum og salernum. En vonir standa til að gerð verði aðstaða hérna í höfninni fyrir að lágmarki átta 30 tonna báta. Það er draumur Stöðfirðinga. Þetta er það eina sem við höfum. Annarri atvinnustarfsemi er vart til að dreifa. Sjávarútvegurinn teygir sig svo langt inn í samfélagið á staðnum.“

Umsvifin eru það mikil að það kallar á tvo starfsmenn tvo starfsmenn frá fiskmarkaðnum og einn frá höfninni. Flökun fer fram á staðnum á byggðakvótanum en auk Einhamars er útgerð Daggar SU með um 100 tonna byggðakvóta sem hefur verið unninn á Fáskrúðsfirði. Þá muni mikið um þegar Sandfell SU, línubát Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, landar á Stöðvarfirði. Sandfellið er línubátur sem rær nánast alla daga nema í verstu brælum og hefur verið aflahæsti báturinn í sínum stærðarflokki.