laugardagur, 26. maí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningsverðmæti aukast um 9 milljarða króna

15. júní 2017 kl. 09:48

Stórþorskur í netaralli. Netaveiðar hafa dregist saman og flest önnur skip forðast stórþorskinn. (Mynd: Tryggvi Sveinsson)

Landssamband smábátaeigenda telur innistæðu fyrir enn meiri aukningu á aflamarki þorsks

Landssamband smábátaeigenda telur fulla innistæðu fyrir því að sjávarútvegsráðherra taki það til alvarlegrar skoðunar að bæta allverulega í aflamark í þorski miðað við þau 6% sem eru í  ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir eðlilegt að aflamarkið verði ekki undir 275 þúsund tonnum.

 Miðað við 6% aukningu á aflamarki í þorski og 20% aukningar í ýsu aukast útflutningsverðmæti þessara tegunda um um það bil 9 milljarða króna. 

„Það gengur eftir það sem við sögðum í fyrra. Við töldum það rangt mat að veiðistofninn mundi lækka, eins og Hafrannsóknastofnun gerði ráð fyrir, vegna lækkunar á meðalþyngd þorsks. Núna hefur Hafrannsóknastofnun komist að þeirri niðurstöðu að rangt mat hafi verið lagt á á ástand veiðistofnsins út frá meðalþyngdinni og nýtt mat leiðir til þess að hann er núna stærri en stefndi í, eða sem munar 14%. Þar sem aflareglan tekur ávallt mið af útgefnu aflamarki á hverju ári myndast alvarleg skekkja í útreikningum. Aflamarkið núna er 244 þúsund tonn en ef það hefði verið hærra, eins og við töldum vera fulla innistæðu fyrir, þá hefði ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um aukið aflamark í þorski verið yfir 270 þúsund tonn,“ segir Örn.

 

Hann bendir á að þorskurinn sé ein helsta auðlind Íslands og áríðandi sé að auðlindin sé nýtt með sjálfbærum hætti. „Við teljum það liggja beint við að þegar nýr sjávarútvegsráðherra kemur að þessu máli í fyrsta skipti að hann skoði þessar tölur. Sjávarútvegsráðherra mætti vega það og meta hvernig spá stofnunarinnar hefur gengið eftir. Við vonumst til þess að sjá aðrar tölur en fram koma í ráðgjöf Hafró.  Okkar mat er að það sé fullkomlega ábyrgt að gefa út 275 þúsund tonna þorskkvóta fyrir komandi fiskveiðiár.“

Sjá nánar í Fiskifréttum í dag.