mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úthafsrækjuveiðar aukast um 45%

26. maí 2009 kl. 14:58

Mun meira hefur verið veitt af úthafsrækju í ár en undanfarin ár, enda hefur skipunum fjölgað sem stunda þessar veiðar. Nú í vikunni var búið að veiða um 20% kvótans á þessu fiskveiðiári. Þarf að fara langt aftur í tímann til að finna sambærilega nýtingu úthafsrækjukvótans.

Það sem af er fiskveiðiárinu hafa verið veidd 2.054 tonn af rækju samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu. Þar af er úthafsrækja um 1.630 tonn en afgangurinn innfjarðarrækja úr Arnarfirði.

Á sama tíma í fyrra var búið að veiða 1.297 tonn af rækju, þar af voru 1.130tonn úthafsrækja. Aukningin er um 45% frá fyrra ári.

Á fiskveiðiárinu hafa 13 skip landað úthafsrækju á móti 7 skipum í fyrra. Enn eru þrír mánuðir eftir af fiskveiðiárinu. Þannig að viðbúið er að veiðin verði mun meiri en þau 1.865 tonn sem veiddust á síðasta fiskveiðiári í heild.