fimmtudagur, 25. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Væntingar voru um 25-30% hækkun

14. september 2018 kl. 17:00

Mun meira veiðist af stórum makríl en í fyrra. MYND/HAG

Gæti endað í 20% hærra meðalverði á makríl

Verð á tonni af heilum makríl hefur hækkað að meðaltali um 200-250 dollara tonnið frá því í fyrra, að sögn Teits Gylfasonar, sölustjóra hjá Iceland Seafood.

Hann segir að verðið sé alltaf á hreyfingu en sér sýnist að verð á 300-500 gramma heilum makríl hafi hækkað að meðaltali um 15%. Heill makríll 400-600 grömm hefur sömuleiðis hækkað um um það bil 15%. Þá hefur hausaður makríll hækkað um nálægt 20% að meðaltali. Um er að ræða hækkun í dollurum og til viðbótar við afurðaverðshækkun er dollarinn nú 6% hærri gagnvart krónu en á sama tíma í fyrra.

Teitur segir að ástæða verðhækkana sé minna framboð og byggðar hafi verið upp væntingar um minna framboð. Margir hafi gefið sér þá forsendu að verðið myndi hækka um allt að 25-30% en svo virðist sem markaðurinn ráði ekki við meiri hækkanir en orðið hafa hvað svo sem framtíðin beri í skauti sér.

Makríllinn sem veiðist á þessu ári er stærri en í fyrra og skilar hærra verði. „Þegar allar stærðir eru teknar saman í lok vertíðar og allt hefur verið selt gætum við heilt yfir verið að sjá verðhækkun upp á allt að 25%. Það sem réði því er sú staðreynd að makríllinn í ár er stærri en í fyrra en ekki það að verð hafi hækkað í samræmi við það.“

Makríllinn fer víða en mest er selt um þessar mundir til Austur-Evrópulanda. Einnig hefur verið selt talsvert magn til Egyptalands og eitthvað til hafna við Svartahafið og Tyrklands.

„Japanir eru líka mættir til að taka út makríl og vonandi að kaupa hann. Það kemur í ljós á næstu tveimur til þremur vikum hvað við náum að selja mikið til Asíu,“ segir Teitur.

Síðustu daga hefur verið góð makrílveiði í Smugunni og um síðustu helgi voru íslensk skip að fá allt að 1.500 tonn í veiðiferðum þangað.