miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verð sjávarafurða erlendis: Hófleg hækkun framundan?

2. nóvember 2009 kl. 09:27

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt lækkaði um 1,2% í september síðastliðnum. Þetta byggir á útreikningi fyrirtækisins IFS greiningar miðað við tölur um framleiðsluverð í september sem Hagstofan birti fyrir helgina.

Afurðaverðið hafði áður hækkað lítillega í  ágúst en lækkaði hins vegar í júní. Síðustu sex mánuði hefur afurðaverð hækkað um 1,8% mælt í erlendri mynt.

,,Tölurnar fyrir helgina gefa vísbendingu um að aðstæður á mörkuðum erlendis séu að ná meira jafnvægi en verið hefur. Ýmislegt bendir til þess að afurðaverð muni ekki lækka mikið meira á erlendum mörkuðum þar sem hagvísar þaðan hafa verið jákvæðir undanfarið.  Hagvaxtarspár fyrir árið 2010 hafa farið hækkandi undanfarið. Við teljum líklegt að framundan sé hófleg hækkun á helstu mörkuðum fyrir sjávarafurðir sem gæti endurspeglað verðbólgu á heimsvísu,” segir IFP greining. 

Afurðaverð jafn hátt og árið 2006

Ennfremur segir: ,,Afurðaverð í erlendri mynt er nú  álíka hátt og um mitt ár 2006. Flest bendir til að sú mikla verðhækkun sem varð á hrávörum á árunum 2007-2008 hafi verið bóla. Núverandi verð er að okkar mati ásættanlegt fyrir flest íslensku sjávarútvegsfyrirtækin.  Afurðaverð er mismunandi eftir flokkum. Þannig er mjölverð mjög hátt en verð á saltfiski enn í lægri kantinum. Mælt í krónum er afurðaverðið mjög hátt."