sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verð sjávarafurða í erlendri mynt fer hækkandi

1. desember 2009 kl. 09:19

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 3,9% í október síðastliðnum. Þetta byggir á útreikningi IFS greiningar og miðast við tölur um framleiðsluverð í september sem Hagstofan birti sl. föstudag.

Á þessu ári hefur afurðaverð verið að ná aftur jafnvægi eftir lækkunina á síðasta ári. Síðustu sex mánuði hefur afurðaverð hækkað um 1,8% mælt í erlendri mynt. Tölurnar fyrir október gefa vísbendingu um að aðstæður á mörkuðum erlendis séu að batna hraðar en áður.

Verð á sjófrystum botnfiskafurðum hefur hækkað vel í verði undanfarið og skýrir þessa hækkun í október að hluta til. Þess ber að geta að sjófrystu afurðirnar lækkuðu mjög mikið í fyrra. Verð á fiskimjöli er sögulega hátt og hefur hækkað mikið undanfarið. Mjölverð er nú 1.480 USD/tonn. Það er því mikið í húfi fyrir íslensku sjávarútvegsfyrirtækin að uppsjávarfisktegundir veiðist vel.

Afurðaverð í erlendri mynt er nú  álíka hátt og um mitt ár 2006. Flest bendir til að sú mikla verðhækkun sem varð á hrávörum á árunum 2007-2008 hafi verið bóla. Núverandi verð er að okkar mati ásættanlegt fyrir flest íslensku sjávarútvegs-fyrirtækin, segir IFS greining.