sunnudagur, 22. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verður einstök á heimsvísu

8. september 2017 kl. 13:00

Nýja landvinnsluhúsið sem Samherji ætlar að reisa á Dalvík mun líta einhvern veginn svona út. AÐSEND MYND

Ný landvinnsla Samherja á Dalvík væntanlega tekin í notkun í ársbyrjun 2019

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., segir að ný landvinnsla fyrirtækisins á Dalvík verði einstök á heimsvísu.

„Þar verður fiskvinnsluhús, búið nýjustu hátæknilausnum sem ég tel að muni marka þáttaskil í íslenskum sjávarútvegi,“ sagði Þorsteinn Már í síðustu viku þegar hann kynnti ársuppgjör Samherja fyrir árið 2016.

„Þetta eru stór orð hjá Þorsteini,“ segir Gestur Geirsson, yfirmaður landvinnslu Samherja, þegar Fiskifréttir leituðu frekari upplýsinga hjá honum. „En jú, þetta er það sem við erum að gera.“

Hann segir að byggt verði nýtt hús fyrir landvinnsluna á Dalvík. Bærinn hafi úthlutað Samherja lóð niðri við höfn og á næstu vikum verði gengið frá kaupum á vélbúnaði í húsið.

„Við ætlum að nýta okkur allt það fullkomnasta sem til er og erum með það allt í skoðun núna. Við höfum farið víða erlendis að skoða búnað og hér heima líka, einnig í öðrum iðnaði, kjúklinga- og kjötframleiðslu,“ segir Gestur. „Mest verður það frá innlendum framleiðendum og þeir eru núna að skila okkur inn tillögum, en við ætlum að nýta okkur allar hátæknilausnir sem til eru.“

Hann segir stefnt á að húsið verði sjö þúsund fermetrar á einni hæð að mestu, vinnslan verði að minnsta kosti öll á einni hæð en á annarri hæð verði þó eitthvað skrifstofurými.

„Bærinn hefur unnið þetta mjög þétt með okkur. Það er verið að stækka höfnina, viðlegukantur verður stækkaður og farið í landfyllingu líka. Bærinn ætlar að skila okkur lóðinni í haust og við leggjum áherslu á að klára húsið í mars. Síðan getum við byrjað að setja upp tækin í október á næsta ári þannig að vinnslan geti hafist í janúar 2019.“

Gestur segir stefnt að því að þarna verði hægt að vinna hundrað tonn á dag, sem þýðir að afköstin verða um 20 þúsund tonn á ári. Til þessa hefur afkastagetan verið um 15 þúsund tonn, en á Dalvík er um helmingur landvinnslu Samherja á bolfiski. Hinn helmingurinn hefur verið unninn á Akureyri.

„Gamla húsið okkar er að stofni til sláturhús á Dalvík, 50 til 60 ára gamalt sem búið er að prjóna við, og það hús er bara barn síns tíma. Við erum búnir að fullnýta það og rúmlega það,“ segir Gestur.

Samherja hefur gengið mjög vel undanfarið. Fyrirtækið skilaði 14,3 milljarða hagnaði á síðasta ári, þar af nærri helmingnum hér innanlands. Verið er að endurnýja togaraflotann og nýja húsið á Dalvík er liður í allri þeirri uppbyggingu sem verið er að ráðast í.

„Við erum að fá ný skip og þau koma með betri gæði að landi. Við þurfum að bregðast við því,“ segir Gestur.

gudsteinn@fiskifrettir.is