mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vonast eftir annarri rannsókn í Ísafjarðardjúpi

3. mars 2008 kl. 11:17

Það er von útgerðarmannsins og rækjuverkandans Jóns Guðbjartssonar að fljótlega verði farið í aðra rannsókn á rækju í Ísafjarðardjúpi. Á föstudag voru rækjuveiðar í Arnarfirði heimilaðar á ný eftir nokkurra ára hlé. Hafrannsóknastofnun fór í sérstaka aukarannsókn á stofninum um miðjan febrúar. Frá þessu er skýrt á www.bb.is

Fyrirtæki Jóns gerir út togarann Gunnbjörn og rekur rækjuverksmiðjuna Kampa á Ísafirði. „Sjórinn hefur kólnað og fiskurinn er genginn út og því ekkert til fyrirstöðu að kanna þetta aftur og þá vonandi að leyfa rækjuveiðar fram á vor“, segir Jón. Vegna loðnuleitar og togararalls eru líkur á að slík rannsókn geti ekki farið fram fyrr en togararalli lýkur eftir 2 – 3 vikur. Gunnbjörn fer á úthafsrækjuveiðar á næstu vikum.

Fyrir helgi var landað 630 tonnum af frystri rækju sem fer til vinnslu hjá Kampa. Rækjan er norsk en Kampi hefur einnig keypt rækju frá Færeyjum og Kanada. „Það hefur verið hark að fá rækju og það segir sig sjálft að það myndi gera mikið fyrir verksmiðjuna að geta unnið einhverja daga í viku úr hráefni af Gunnbirni og svo innfjarðarækju auk frosinnar rækju“, segir Jón.

 Í rannsókninni í haust mældist rækjustofninn í Ísafjarðardjúpi lítill. Hann hafði þó farið stækkandi frá árinu 2004 og 2005 er stofninn náði lágmarki og var svipaður og haustið 2003. Minna var um þorsk en áður, en mikið var um ýsu og lýsu. Undanfarna fjóra vetur hefur verið mikið af þorski og ýsu í Djúpinu og engar rækjuveiðar leyfðar.

Frá og með árinu 2006 virðist rækjustofnin hafa vaxið í Ísafjarðardjúpi og var heildarvísitala dálitlu hærri í haust en haustið 2006. Vegna mikils ungfisks var þó ekki unnt að leggja til rækjuveiðar.