Nokkuð var fjallað um að kynferðisbrotamaður, sem tók út refsingu fyrir nokkru, hafi fengið uppreist æru og í framhaldi af því fengið lögmannsréttindi að nýju. Á því höfðu menn ýmsar skoðanir, ekki síst þar sem afbrot hans, misnotkun á unglingsstúlkum, þóttu sérlega ógeðfelld.

DV flutti af þessu tækifæri langa úttekt um manninn, störf hans og feril út frá ýmsum sjónarhornum. Það er ekkert að því að gera slíka úttekt, við blasir að margir hafa áhuga á málinu og það á erindi við almenning. En það er ekki sama hvernig það er gert.

Í greininni lagði höfundur lykkju á leið sína til þess að draga fram að umræddur maður tengdist Sjálfstæðisflokknum sérstaklega og ýjaði að því að það hefði einhverju ráðið í málinu. Fyrirsögnin gaf tóninn: „Glysgjarni Sjálfstæðismaðurinn sem fékk uppreist æru“, en í innganginum sagði m.a.:

Af hverju styðja Sjálfstæðismenn Róbert? Er það vegna þess að hann var innsti koppur í búri Heimdalls?

Í greininni vantar hins vegar tilfinnanlega innstæðu fyrir þessum forsendum. Þar er tínt til að maðurinn hafi verið umræðustjóri á fundi Heimdallar um landhelgismálið árið 1973! Og jú, selt fasteignir í félagi við tvo aðra nafngreinda sjálfstæðismenn (annar lést 1983). Sem dugði höfundi til þess að tönnlast á því, nefna manninn „gamla sjálfstæð- ismanninn“ o.s.frv.

Eina dæmið, sem nefnt er um að einhver hafi komið manninum til varnar í þessum efnum, er Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður hans. Ætli það sé ekki eitthvað annað en stjórnmálaskoðanirnar sem ráði því að verjandi verji skjólstæðing sinn?!

Nei, þarna hefur stjórnmálaafstaða blaðamannsins sjálfs leitt hann á gönur. Það er skiljanlegt að í viðkvæmum málum af þessu tagi geti mönnum orðið heitt í hamsi, en það er einmitt það sem blaðamenn þurfa að varast. Tala nú ekki um ef afleiðingarnar eru svona samsæriskenningar. En hitt er illskiljanlegt, að ritstjórar eða fréttastjórar hafi ekki gripið í taumana.

***

Sagt var frá því í vikunni að varaþingmaður Pírata hefði lagt það til að menn mótmæltu vopnaburði lögreglu með því að hringja í sífellu í neyðarlínuna þegar þeir yrðu vopnaðrar lögreglu varir og tilkynna um vopnaða menn í lögreglubúningum.

Þessi tillaga mæltist misvel fyrir, en hvernig í dauðanum stendur á því að öllum fjölmiðlum yfirsást að fá álit Smára McCarthy á málinu? Er hann þó vafalaust eini þingmaðurinn, sem hefur yfirgripsmikla reynslu af skotvopnum, beggja vegna hlaupsins.

***

Fjölmiðlarýnir sá það raunar út undan sér að sumum Pírötum fannst of mikið gert úr orðum varaþingmannsins (hann sagðist seinna hafa verið að grínast), sem hefðu fallið á Facebook-umræðusíðu flokksins. Spurðu hvort fjölmiðlar fylgdust jafnvel með samskonar síðum annarra flokka.

Svarið við því er nei, því hinir flokkanir halda ekki úti svo fjörlegum síðum. Það skaðar pírata örugglega ekki, að fjölmiðlar fjalli um málefnaumræðu þeirra, en það getur varla komið þingmönnum Pírata á óvart þó einhverjir taki orð þeirra alvarlega.

***

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp þann dóm í gær, að vikuritið Stundin þyrfti að greiða útvarpsstöðinni Sögu 200.000 krónur vegna leyfislausrar birtingar á 15 myndum af Facebook-síðu útvarpsstöðvarinnar.

Nú er það alveg rétt í dóminum að útvarpsstöðin er rétthafi myndanna og af þeirri ástæðu bæri auðvitað að gjalda fyrir birtinguna.

En málið kann að vera snúnara. Þannig er það viðtekin venja að myndir, sem dreift er í kynningarskyni, eru undanþegnar slíkum skilmálum. Með dreifingunni hefur viðkomandi í raun gefið leyfi til birtingar og ekki aðeins í því samhengi sem hann kysi.

Fellur birting á Facebook undir slíka dreifingu? Það er óleyst vandamál.

En jafnvel þó svo þetta hefðu ekki verið kynningarmyndir, þá er rétt að hafa í huga að framsetningin skiptir máli. Þegar Stundin tók myndirnar af vefnum og setti í eigið samhengi var hún að taka þær til handargagns. Það má ekki nema með leyfi. En hefði Stundin tekið skjámyndir og birt þær, þó ekki nema rétt glitti í Facebookumgjörð þeirra, þá hefði hún verið í fullum rétti. Það má sumsé ekki birta ljósmynd annars án leyfis, en það má birta eigin ljósmynd af ljósmynd annars.

***

Fyrirsögn vikunnar var í Vísi: „Lohan er komin.“