sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

250 þúsund makrílar merktir

6. apríl 2017 kl. 13:18

Merki skotið í makríl.

Áhugaverðar merkingar á makríl með örmerkjum

Frá árinu 2011 hafa Norðmenn merkt makríl árlega við Írland með svonefndum örmerkjum. Hluti þessara merkja hefur endurheimst við Ísland. Í haust verða niðurstöður þessa verkefnis notaðar í fyrsta sinn til að styðja við mat á stofnstærð makríls. Íslendingar hófu svipaðar merkingar á makríl hér við land árið 2015. Þetta kemur fram í grein í nýjustu Fiskifréttum.

Norðmenn hafa leigt uppsjávarskip í þetta verkefni í einn mánuð á vorin. Makríllinn er veiddur á handfæri og sérhæfður búnaður er um borð fyrir móttöku makrílsins og góð aðstaða fyrir merkingar. Um 20 til 55 þúsund makrílar eru merktir á hverju vori og í heild er búið að merkja um 250 þúsund makríla með þessari tegund merkja. 

Örmerkið sjálft sést ekki þegar makríllinn er veiddur en víða hefur verið komið fyrir sérstökum lesurum eða skönnum við færibönd í uppsjávarfrystihúsum hjá helstu veiðiþjóðum. Skannarnir finna merkta fiska, lesa merkin rafrænt og senda upplýsingar sem þau hafa að geyma sjálfkrafa í gagnabankann.   

Um 17 verksmiðjur í Noregi, Skotlandi, Íslandi, Færeyjum og Danmörku eru með skanna en um 20-25% af öllum makrílafla í Norður-Atlantshafi fara í gegnum þessar verksmiðjur. Skannar eru í þremur verksmiðjum hér á landi, á Vopnafirði, í Neskaupstað og á Höfn í Hornafirði. 

Í heild hafa merki fundist í um 2.300 makrílum. Rúmlega 1.100 merki hafa endurheimst við Noreg, tæplega 900 í Skotlandi og tæplega 300 merki við Ísland. Fæst merki hafa endurheimst við Færeyjar og Danmörk.  

Ráðist hefur verið í það, í samstarfi við Norðmenn, að merkja makríl hér við land með örmerkjum. Þessar merkingar hófust í ágúst árið 2015. Þá náðist að merkja tæplega 1.000 fiska sem veiddir voru á handfæri við Snæfellsnes. Í ágúst á síðasta ári var farið í annan leiðangur á bátnum Geisla SH og þá tókst að merkja tæplega 5 þúsund makríla.

Góðar endurheimtur hafa verið á merktum makrílum við Ísland. Hingað til hafa 77 merktir fiskar verið skannaðir á vinnslustað. Eins og við var að búast var megnið af merkjunum endurheimt eftir veiðar íslenskra skipa úti af Austfjörðum um hálfum mánuði til þrem vikum eftir merkingu, eða 38 merki. Innan við 20 merki hafa verið innheimt við Noreg og innan við 20 merki við Skotland. Örfá merki hafa fundist í makríl veiddum við Færeyjar. 

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.