sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

34 þús.tonnum af kolmunna landað í Eyjum

2. maí 2008 kl. 20:44

Búið er að bræða 26-27 þúsund tonn af kolmunna í fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins í Vestmannaeyjum (FES) það sem af er árinu og um 7.000 tonn hjá verksmiðju Vinnslustöðvarinnar (FIVE), að því er fram kemur á vef Frétta í Eyjum.

Ólafur Guðmundsson, hjá útgerðarsviði Ísfélagsins, sagði að Guðmundur VE og Álsey VE hefðu verið á kolmunna og landað tvisvar í Eyjum eftir loðnuvertíðina, Álsey tæpum 3.200 tonnum og Guð­mundur 2500 tonnum í bræðslu og 1500 tonnum af frystum afurðum. Annað hefði verið keypt af Norð­mönnum, Færeyingum og Íslend­ingum. „Það er rólegra yfir veið­unum, Norðmenn eru hættir enda búnir með kvótann og Ísfélagsskipin að klára sinn kvóta og í síðasta túr á vertíðinni," sagði Ólafur.

Kap VE og Huginn VE, lönduðu afla hjá Vinnslustöðinni í síðustu viku. Sigurður Friðbjörnsson, verksmiðjustjóri FIVE, sagði Kap hafa verið með 1240 tonn og Hugin með tæp 1730 tonn en ekkert var fryst um borð í síðasta túr. „Við erum búin að bræða 7000 tonn af kolmunna frá áramótum og höfum ekki keypt neitt af öðrum skipum," sagði Sigurður.