þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

360 ferðir yfir Oddsskarð í september

4. október 2013 kl. 11:08

Athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað (Guðlaugur Birgisson)

Miklir fiskflutningar frá Neskaupstað bæði á sjó og landi.

Alls fóru flutningabílar um 360 ferðir yfir Oddsskarð og í gegnum Oddsskarðsgöng vegna flutninga á fiski og fiskafurðum frá Neskaupstað í septembermánuði síðastliðnum. Vegna þessara flutninga eingöngu fóru því slíkir bílar 12 ferðir á dag yfir Skarðið  hvern einasta dag mánaðarins, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. 

Í nýliðnum septembermánuði var skipað út rúmum 10.000 tonnum af frystum afurðum úr frystigeymslum Síldarvinnslunnar. Hér er fyrst og fremst um að ræða makríl og síld. Alls fóru 7.500 tonn beint í skip en um 2.500 tonn fóru í gáma sem ekið var með yfir Oddsskarð til útskipunar á Reyðarfirði. Þetta þýðir að rúmlega 100 gámar af frystum afurðum hafa verið fluttir yfir Oddsskarð í mánuðinum og ferðir flutningabílanna yfir Skarðið fram og til baka vegna þessara flutninga hafa verið á þriðja hundrað.

Fyrir utan þetta hefur mikið af ísuðum bolfiski verið flutt með flutningabílum yfir Skarðið í mánuðinum og hefur sá fiskur bæði komið frá Bjarti NK og eins smærri bátum, ekki síst línubátum sem róið hafa frá Neskaupstað að undanförnu og oft aflað vel. Ferðirnar með ferskan fisk voru um 70 talsins og fóru flutningabílarnir vegna þeirra um 140 sinnum  yfir Skarð og í gegnum Oddsskarðsgöng . Loks voru farnar 10 ferðir með fiskimjöl yfir Skarðið í mánuðinum og það gera 20 ferðir þeirra bíla sem sinntu þeim flutningum.