miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

5 af 7 útgerðum falla frá málsókn um skaðabætur

Guðjón Guðmundsson
15. apríl 2020 kl. 18:38

Vinnslustöðin og Huginn í Vestmannaeyjum íhuga stöðu sína.

Sigurbjörn Magnússon hæstaréttarlögmaður hefur í umboði útgerðarfélaganna Eskju, Gjögurs, Ísfélags Vestmannaeyja, Loðnuvinnslunnar og Skinney-Þinganess, komið eftirfarandi fréttatilkynningu á framfæri:

„Svo sem fram hefur komið munu áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafa víðtæk áhrif á ríkissjóð og allt íslenskt samfélag. Fyrir endann á því verður ekki enn séð, því miður. Það er hins vegar á svona stundum sem styrkleikar íslensks samfélags koma vel í ljós. Víðtæk samstaða og baráttuhugur hafa einkennt samfélagið síðustu vikur og mánuði. Nú verða allir að leggja lóð á vogarskálar. Af þessum sökum hafa undirrituð fimm sjávarútvegsfyrirtæki tekið þá ákvörðun að falla frá kröfum á hendur íslenska ríkinu vegna ágreinings um úthlutun aflaheimilda í makríl.

Þann 6. desember 2018 voru kveðnir upp tveir dómar Hæstaréttar, þar sem viðurkennd var skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna fjártjóns sem tvær útgerðir (Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Huginn ehf.) töldu sig hafa orðið fyrir með því að fiskiskip þeirra hefðu á grundvelli reglugerða verið úthlutað minni aflaheimildum í makríl árin 2011 til 2014 en skylt hefði verið samkvæmt lögum. Með dómum þessum var því staðfest að lög hafi verið brotin af hálfu þáverandi sjávarútvegsráðherra við úthlutun aflaheimilda og að leiddar hefðu verið að því líkur að fjárhagslegt tjón hafi hlotist af þeirri háttsemi. Umboðsmaður Alþingis komst að sambærilegri niðurstöðu vegna þessarar meðferðar ráðsherra.

Í kjölfar þessa dóma höfðuðu sjö útgerðarfélög, um miðbik síðasta árs, mál á hendur íslenska ríkinu til heimtu skaðabóta vegna þess tjóns sem þau urðu fyrir vegna rangrar úthlutunar makrílkvóta, á tímabilinu 2011-2018.

Árétta ber að enn hefur ekki verið dæmt um hvert hið fjárhagslega tjón hlutaðeigandi aðila var á því tímabili sem aflaheimildum var úthlutað í andstöðu við sett lög. Það hefur raunar ekki verið grundvallarþáttur málsins. Það sem mest er um vert, er að settum lögum sé fylgt og ábyrgð fylgi því þegar út af bregður. Það á við um fyrirtæki, einstaklinga og stjórnvöld. Þetta er einn grundvallarþáttur réttarríkis.“

Eins og Fiskifréttir fjölluðu um í gær kom makrílmálið til tals á Alþingi. Þar stigu þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, fast til jarðar. Katrín skoraði á útgerðirnar sjö að draga kröfur sínar til baka. Bjarni sagði málið einfalt. Reikningurinn vegna málsins, ef til þess kæmi, yrði ekki borgaður af skattgreiðendum heldur af greininni sjálfri. Skrifaði hann eftirfarandi til áréttingar um þetta á FB-síðu sína síðdegis í gær: 

„Það kemur ekki til greina að ríkissjóður verði fyrir skaða vegna þessara málaferla. Ég tel því einsýnt að við munum þegar hefja undirbúning nauðsynlegrar lagasetningar sem taka af öll tvímæli um að makrilútgerðirnar sjálfar beri kostnaðinn af þeim bótum sem krafist er," skrifar Bjarni. 

Eins og komið hefur fram krefja sjö útgerðir íslenska ríkið um samtals 10,2 milljarða króna í skaðabætur vegna úthlutunar á aflaheimildum í makríl árin 2011-2018. Þetta kom fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, og Viðskiptablaðið hefur meðal annarra fjallað um.

Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt gegn útgerðum aflareynsluskipa vegna úthlutunar aflahlutdeildar fyrrgreind ár. Samfelld veiðireynsla og bar því að kvótasetja á grunni hennar. Þess í stað var aflahlutdeild úthlutað samkvæmt reglugerð og hlutur aflareynsluskipanna skertur.

Hæsta krafan er frá Ísfélagi Vestmannaeyja, tæplega 3,9 milljarðar króna, en því næst kemur Eskja með rúmlega tvo milljarða. Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes vilja rúmlega milljarð hvort í bætur og þá vilja Huginn og Vinnslustöðin tæpan milljarð í bætur. Lægsta krafan er frá Gjögur sem vill 328 milljónir.

Í öllum tilfellum var krafist vaxta frá útgáfudegi reglugerða um veiðiheimildir í makríl auk dráttarvaxta frá þingfestingu málanna.