þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

600 milljón kr. samningur Skagans í Múrmansk

18. ágúst 2015 kl. 09:50

Íslenskt hugvit. Sjálfvirkir frystar frá Skaganum.

Hannar og setur upp fullkomna bolfiskvinnslu með ofurkælingu

Skaginn hf. á Akranesi gekk nýverið frá samningi við fyrirtækið Polar Sea um heildarhönnun, smíði og uppsetningu bolfiskvinnslu í Múrmansk í Rússlandi.

Sagt er frá þessu í Morgunblaðinu.

Skaginn er systurfyrirtæki 3X Technology á Ísafirði. Upphæð samningsins er 600 milljónir króna. Verkefnið er unnið í samvinnu við Marel og hluti smíðinnar verður hjá 3X á Ísafirði. 

Polar Sea er hluti af einu stærsta sjávarútvegsfyrirtæki í Rússlandi, Murmansk Trawl Fleet og hefur á undanförnum árum verið umsvifamikið í rekstri frystitogara en hyggst nú hasla sér völl í landvinnslu. Áhersla verður lögð á gæði og lágt hitastig afurða í vinnslunni með notkun á ofurkælingarferli frá Skaganum.

 

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans, segir í Morgunblaðinu í dag að um mikilvægan samning sé að ræða og metnaðarfullan, en hann komi í framhaldi af markaðsátaki í Rússlandi. 

Bolfiskvinnslan í Múrmansk á að verða ein sú fullkomnasta í heimi, þar sem markmiðið verði að byggja upp ferskflaka- og fullvinnslumarkað í Rússlandi. Viðskiptabann Rússa tekur ekki til búnaðar eins og bolfiskvinnslunnar.