þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

78 af 92 starfsmönnum HB Granda komnir með vinnu

14. júlí 2017 kl. 12:55

HB Grandi, Akranes

Enn á eftir að finna starf fyrir 14 starfsmenn af þeim sem sagt var upp nýlega.

HB Grandi býður í dag 57 starfsmönnum sínum starf á öðrum starfsstöðvum fyrirtækisins, eða dótturfélögum, en í bolfiskvinnslunni á Akranesi. Starfsfólki HB Granda á Akranesi sem sagt var upp störfum í tengslum við breytingar á bolfiskvinnslu félagsins var gefinn kostur á að sækja um áframhaldandi vinnu á öðrum starfstöðvum á Akranesi og í Reykjavík, en frestur til þess rann út um mánaðarmótin.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu HB Granda.

Að svo stöddu er ekki hægt að verða við óskum 14 starfsmanna af þeim 92 sem sagt var upp.

Í fréttinni segir: „Allir sem tóku fram að Norðurgarður í Reykjavík kæmi til greina sem vinnustaður fá boð um vinnu þar, alls 29 starfsmenn. 28 starfsmenn fá boð um störf á Akranesi, hjá dótturfélögum HB Granda, Norðanfiski og Vigni G. Jónssyni en einnig við sameiginlega þjónustu, þ.e. umsjón tækja, lóða og fasteigna félagsins. 21 starfsmaður hyggst eða hefur þegar farið til annarra vinnuveitanda eða í nám. Félagið hefur enn ekki fundið lausnir fyrir 14 starfsmenn sem hafa vinnu til 1. september næstkomandi en mun áfram aðstoða þá eftir megni við atvinnuleit innan félagsins sem utan.“