mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskimenn fá 975 milljarða bætur

7. mars 2012 kl. 18:05

Mexíkóflói

BP olíufélagið opnar budduna vegna olíuslyssins í Mexíkóflóa

Tugþúsundir bandarískra fiskimanna munu njóta góðs af 7,8 milljarða dollara bótagreiðslu, jafnvirði 975 milljarða íslenskra króna, sem olíufélagið BP hefur samþykkt að inna af hendi vegna olíuslyssins í Mexikóflóa árið 2010.

BP hefur staðfest að samkomulag hafi tekist við yfir 100.000 aðila, fyrst og fremst fiskimenn, smá sjávarútvegsfyrirtæki og aðra sem urðu fyrir skaða. Strax eftir slysið bönnuðu bandarísk stjórnvöld fiskveiðar á stóru svæði í Mexíkóflóa sem hafði mikil áhrif á lífsafkomu þúsunda fiskimanna. Jafnframt misstu þúsundir fiskveitingastaða í Bandaríkjunum mikil viðskipti og leiddi til tímabundins samdráttar í neyslu sjávarafurða þar í landi, þar sem bandarískir neytendur litu margir ranglega svo á að allar sjávarafurðir á markaðinum væru mengaðar.

Þrátt fyrir að BP hafi fallist á þessar greiðslur hefur fyrirtækið ekki viðurkennt skaðabótaskyldu sína og á yfir höfði sér frekari skaðabótakröfur frá bandarískum stjórnvöldum og þeim ríkjum sem liggja að Mexíkóflóa.