fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnugangan komin inn á Breiðafjörð

4. mars 2012 kl. 15:02

Lundey NS, skip HB Granda. (Mynd: Guðm. St. Valdimarsson)

Koppalogn og ládautt á veiðisvæðinu í nótt.

Loðnugangan, sem veitt hefur verið úr undanfarnar vikur, er nú komin inn á Breiðafjörð og í nótt voru skipin að veiðum um átta mílur norður af Öndverðarnesi. Lundey NS fékk um 1.100 tonna afla í þremur köstum í nótt og er rætt var við Stefán Geir Jónsson, fyrsta stýrimann og afleysingaskipstjóra, átti Lundey eftir um klukkutíma siglingu til Akraness.

,,Loðnan hefur gengið hratt norður eftir og er nú komin inn í Breiðafjörðinn. Við erum búnir að elta þessa göngu og aflinn hefur verið mjög góður og reyndar merkilega góður í ljósi þess hvernig tíðarfarið hefur verið. Það hafa verið ríkjandi vestan og suðvestanáttir og stöðugar brælur og það var ekki fyrr en í nótt að við fengum loksins almennilegt veður, koppalogn og ládauðan sjó,“ segir Stefán Geir á heimasíðu HB Granda.

Að hans sögn eru menn nú að stunda veiðarnar í verri veðrum en oft áður. Það helgast öðrum þræði af því að mikil verðmæti eru í húfi og ekki megi heldur gleyma því að veiðarfærin séu orðin mun betri en þau voru fyrir nokkrum árum og því megi bjóða þeim upp á meiri átök.

Loðnan, sem nú veiðist norðan við Öndverðarnes, á ekki langt eftir í hrygningu og Stefán Geir segir að hrognafyllingin sé örugglega um 26-27%.
,,

Það eru örugglega einhverjar torfur af loðnu sem eiga eftir að skila sér. Nú er okkar helsta vandamál að það er spáð skítabrælu næstu þrjá sólarhringana. Það mun örugglega koma niður á veiðunum en maður verður bara að vona það besta,“ segir Stefán Geir Jónsson.