föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aðeins rannsóknakvóti verði gefinn út á humar

31. janúar 2019 kl. 16:14

humar, gugu

Til að minnka álag á illa stæðan humarstofn ráðleggur Hafrannsóknastofnun að veiðar verði bannaðar á afmörkuðum svæðum - meðal annars í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar ungviði. 728 tonn voru veidd árið 2018, sem er minnsti afli frá upphafi veiða.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að humarafli ársins 2019 verði aðeins 235 tonn. Þessi aflaheimild er ráðlögð svo fylgjast megi með stærðarsamsetningu og dreifingu humarstofnsins. Jafnframt leggur stofnunin til að allar humarveiðar verði bannaðar í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar uppvaxandi humri.

Til að minnka álag á humarslóð ráðleggur Hafrannsóknastofnun einnig að veiðar með fiskibotnvörpu verði bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun rétt í þessu.

Í gögnum Hafrannsóknastofnunar segir jafnframt að Þéttleiki humarholna við Ísland mælist nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið veitir ráðgjöf fyrir. Samkvæmt eldri stofnmatsaðferð (VPA), sem beitt var til mats á afrakstursgetu humarstofnsins, er stofnstærð 2019 metin einungis um þriðjungar af gátmörkum.

Lengdarmælingar úr afla og stofnmælingum benda einnig til nýliðunarbrests á undanförnum árum. Veiðar á 235 tonnum árið 2019 ættu að gefa mynd af útbreiðslu og stærðarsamsetningu stofnsins.

Um horfur stofnsins segir að fyrirliggjandi gögn benda til að nýliðun sé í sögulegu lágmarki og að árgangar frá 2005 séu mjög litlir. Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins.

Afli tvöfaldaðist frá árinu 2004 til ársins 2010 þegar hann náði 2.500 tonnum. Síðan hefur aflinn minnkað og var 728 tonn árið 2018, sem er minnsti afli frá upphafi veiða árið 1957.

Sókn í stofninn hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2009 en afli á sóknareiningu er nú í sögulegu lágmarki. Útgefið aflamark hefur ekki náðst síðustu tvö fiskveiðiár.