föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aðeins þriðjungur laus við erfðablöndun

12. febrúar 2016 kl. 12:00

Lax

Norskir villtir laxastofnar í sambýli við eldislax

Aðeins þriðjungur 125 villtra laxastofna í Noregi, sem rannsakaðir voru, reyndist með öllu laus við  erfðafræðileg spor frá eldislaxi. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem norska hafrannsóknastofnunin og Norska náttúrurannsóknastofnunin (NINA) gerðu á 20.000 löxum sem klaktir voru út í náttúrunni. Ýmist var um að ræða ungfisk eða fisk sem sneri aftur í árnar úr sjó. 

Niðurstöðurnar voru þær að í 35% laxastofnanna fundust engin spor, í 33% laxastofnanna voru vægar breytingar, í 7% stofnanna voru miðlungs breytingar og í 25% stofnanna voru erfðabreytingarnar miklar (til skýringar má nefna að einn laxastofn er í hverri laxveiðiá og stundum fleiri).  

Erfðablöndunin stafar af því að eldislax sleppur úr kvíum og blandast villtum laxi. Slík slys eru óhjákvæmileg þegar þess er gætt að Norðmenn framleiða meira en milljón tonn af eldislaxi á ári. 

Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar (www.imr.no).