mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aðstoð við ákvarðanatöku í fiskvinnslu

10. nóvember 2017 kl. 09:00

Lokaverkefni í meistaranámið við HR

Elín Helga Jónsdóttir vann lokaverkefni sitt í meistaranámi í rekstrarverkfræði við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og snerist það um ákvarðanatöku í framleiðslu í fiskvinnslu. Verkefni hennar var styrkt af SFS.

 Elín Helga útbjó líkan fyrir daglega áætlanagerð í fiskvinnslu.

„Til að gera líkanið notaði ég raungögn frá dæmigerðum vinnsludegi og prófaði það í sjávarútvegsfyrirtæki. Líkanið nýtist sem hjálpartæki fyrir framleiðslustjóra til að ákvarða afurðassamsetningu dagsins, það er val á vinnsluleiðum,“ segir Elín Helga.

Hraði í framleiðslu hefur aukist verulega í nútíma sjávarútvegi. Háþróuð tæki og hugbúnaður er notaður til að stýra framleiðslunni, frá því að flokka hráefnið að pökkun og þar til varan er tilbúin til afhendingar.

Betri nýting hráefnis

„Í dag geta viðskiptavinir sjávarútvegsfyrirtækja lagt inn pöntun og fengið vöruna afhenta í lok dags. Til að halda í við hraðann og dragast ekki aftur úr í samkeppni er gott að hafa hjálp við ákvarðanatökuna. Að nota líkan sem þetta virkar vel í þeim tilgangi og mun virka enn betur í framtíðinni þar sem sífellt er verið að afla gagna sem þýðir að líkönin verða enn betri. Það er til mikils að vinna að nýta hráefnið betur en afturðir í sjávarútvegi eru meira en 42% alls útflutnings frá Íslandi,“ segir Elín Helga.

Elín Helga segir að hugmyndin að líkaninu komi upphaflega frá leiðbeinenda hennar, Páli Jenssyni. Hugmyndin sé þó ekki ný en þó er ekki vitað til þess að hún hafi verið notuð hérlendis.

Sjálfvirkt ferli

„Við teljum að með aukinni tækni, forritun og sjálfvirkni væri líkanið mjög hentugt fyrir fiskvinnsluna. Lausnin felst í svokölluðu bestunarlíkani sem aðstoðar framleiðslustjóra í fiskvinnslu að ákveða hvernig eigi að vinna úr hráefni dagsins. Líkanið auðveldar honum að ákveða afurðasamsetninguna úr hráefninu miðað við fyrirliggjandi pantanir og virði hvers hluta fisksins. Ég sé fyrir mér að forritinu yrði komið fyrir í tækjum í flokkunarhluta vinnslulínunnar eða í skurðartækjunum. Eins og þetta er gert núna þarf að slá inn upplýsingar sem stýra tækjunum en með bestunarlíkaninu kæmu þessi gögn sjálfvirkt inn við flokkun eða fyrir flokkun afurðanna. Þetta drægi úr handavinnunni og yrði sjálfvirkt ferli inni í vélunum,“ segir Elín Helga.

Hún segir að það hámarki framlegð fyrirtækis sé hráefnið unnið í samræmi við mesta virði. En um leið taki líkanið tillit til mismunandi pantana. Núna er þetta á ábyrgð framleiðslustjóra fiskvinnslufyrirtækja en líkanið er hugsað sem hjálpartæki hans sem tryggi að hann taki réttar ákvarðanir með tilliti til afurðasamsetningarinnar hverju sinni.

Elín Helga segir framhaldið nú sé að sækja um styrk til frekari þróunar á verkefninu.