miðvikudagur, 14. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ætla að slátra 20.000 tonnum í ár

Guðsteinn Bjarnason
27. febrúar 2021 kl. 09:00

Fullkominn hátæknibúnaður frá Marel hefur verið settur upp í vinnsluhúsi Búlandstinds á Djúpavogi. Aðsend mynd

Tilraunavinnsla á laxaflökum hafin hjá Búlandstindi.

Með auknu fiskeldi á Austfjörðum hefur fiskvinnslan Búlandstindur á Djúpavogi vaxið hratt og stefnir enn hærra. „Erum hvergi nærri hætt,“ segir Elís Grétarsson framkvæmdastjóri.

„Það er alltaf eitthvað um að vera hjá okkur og bara skemmtilegt þegar maður lítur til baka hvað hefur áunnist, en við erum samt sem áður ekki komin á leiðarenda. Við höfum stóra drauma,“ segir Elís Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds ehf. á Djúpavogi.

Undanfarin ár hafa verið viðburðarík hjá fyrirtækinu. Búlandstindur tók til starfa í janúar 2015 og var þá eingöngu í hefðbundinni bolfiskvinnslu, en hefur síðan vaxið hratt samfara auknu eldi á austfjörðum og er nú líklega stærsta fyrirtækið í Múlaþingi.

„Aukningin hefur fyrst og fremst verið í laxi hjá okkur, enda kvótakerfið erfitt viðureignar“ segir Elís. „Jafnt og þétt erum við búin að vera að byggja upp sérhæfða laxavinnslu með búnaði og tækninýjungum og erum hvergi nærri hætt, við ætlum okkur að verða leiðandi á þessu sviði.

Árið 2015 voru unnin hjá Búlandstindi 300 tonn af laxi og starfsmenn voru um 30. Á síðasta ári var slátrað nærri 9.000 tonnum. Núna eru starfsmenn orðnir 80 og stefnt er á að slátra 20.000 tonnum á þessu ári.

„Við erum auðvitað að taka stórt skref núna frá síðasta ári. Áætlanir gera ráð fyrir um helmings aukning milli ára. Það er töluverður biti að kyngja.“

Með nýjum búnaði breytast jafnframt störfin í fyrirtækinu. Sértæk störf sem krefjast sértækrar menntunnar og reynslu eru nú í bland við hefðbundnari fiskvinnslustörf, og verkin eru fjölbreyttari en áður.

Breytt störf með breyttri tækni

„Við erum svona smátt og smátt að útrýma ákveðnum erfiðum handtökum með heilsuvernd starfsmanna og gæði fisksins í huga. Þannig að verkin eru meira að færast yfir í eftirlit og umsjón með tæknibúnaði. Við erum og ætlum að vera atvinnuskapandi og veita fólki möguleika á fjölbreyttum störfum og atvinnuöryggi,“ segir Elís.

„Við fórum af stað í þennan rekstur með það að leiðarljósi og ætlum okkur að halda þeirri vegferð áfram. Það hefur gefist vel, við erum heppin með starfsfólk. Annars væri þetta ekki hægt“.

  • Elís Hlynur Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds. Aðsend mynd

Búlandstindur var stofnaður í lok árs 2014 eftir að fjölskyldufyrirtækið Ósnes keypti ásamt Fiskeldi Austfjarða búnað og húsnæði fiskvinnslu Vísis í kjölfar brotthvarfs þeirra frá Djúpavogi. Laxar Fiskeldi kom svo inn í Búlandstindi árið 2018 þannig að fyrirtækið er að stórum hluta í eigu tveggja stórra eldisfélaga á Austfjörðum.

„Það er þannig að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar. Og menn verða líka að hafa áhuga, ástríðu, hugvit og hugrekki til þess að reyna að opna fleiri dyr, og svona lítið samfélag mun alltaf byggjast upp á þeim mannauð sem er á staðnum.“

Ekki þrautarlaus ganga

Ævintýralegum árangri og stækkun af þessari stærðargráðu fylgja auðvitað endalausar áskoranir og segir Elís það ekki hafa verið þrautarlausa göngu þó margt hafi gengið upp eins og áætlað var.

Síðasta haust var settur upp hátæknibúnaður frá Marel í Búlandstind. Búnaðurinn samanstendur af fiskinnmötun og gæðaskoðun, sjálfvirkum heilfiskflokkara og kassakerfi.

Elís segir þetta mjög öflugt kerfi sem getur afkastað allt að 20 kössum af laxa afurðum á mínútu: "Innleiðing þessa kerfis gerir okkur mögulegt að að flokka og pakka um 150 tonnum af heilum laxi á 8 tíma vinnudegi."

Tilraunavinnsla á laxaflökum

Hann segir jafnframt að Búlandstindur ætli áfram að vera leiðandi í heildarlausnum með framleiðslu á frosnum, ferskum og söltuðum fiski og nú þegar sé hafin vöruþróun og tilraunavinnsla á laxaflökum og enn meiri fullvinnsla er líkleg.

Síðar á þessu ári tekur til starfa kassaverksmiðja á Djúpavogi sem mun skapa atvinnu fyrir um fimm manns og framleiða allar umbúðir fyrir laxinn.

„Það er mikilvægt skref í takt við umhverfisstefnu okkar. Það er glórulaust að flytja þessar umbúðir frá Reykjavík til Djúpavogs. Hér erum við að horfa til kolefnasporanna og að gera það sem við getum til að jafna þau. Á góðum degi erum við að senda sjö flutningabíla af laxi frá okkur og tökum við öðru eins af umbúðum. Þarna sjáum við tækifæri til að gera betur“