laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflamarki ársins úthlutað

2. september 2019 kl. 14:33

Tíu stærstu útgerðir landsins eru nú komnar með yfir helming úthlutaðra veiðiheimilda.

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2019/2020. 

Að þessu sinni er úthlutað 372 þúsund tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 384 þúsund þorskígildistonn í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð. Samdráttur á milli ára samsvarar því um 12 þúsund þorskígildistonnum.

Tíu stærstu útgerðir landsins eru nú með yfir helming úthlutaðra veiðiheimilda, og 50 stærstu útgerðir landsins eru komnar með 89 prósent kvótans.

Alls fá 336 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða 80 færri en í fyrra þegar mikil fjölgun varð vegna kvótasetningar á hlýra. 

Brim (áður HB Grandi) fær mestu úthlutað til sinna skipa eða 9,4% af heildinni, næst kemur Samherji með 6,6% og þá FISK Seafood með 6,0% og  Þorbjörn hf. með 5,5%.

Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og á fyrra fiskveiðiári. 

Úthlutað aflamark er alls um 440 þúsund tonn í hinum ýmsu kvótategundum sem er um 11 þúsund tonnum minna en á fyrra ári.

Úthlutun í þorski er rúm 215 þúsund tonn og eykst  um 7 þúsund tonn frá fyrra ári. Ýsukvótinn er rúm 32 þúsund tonn og dregst saman um 13 þúsund tonn.  Aukning er  í  ufsakvótanum er eitt þúsund tonn en um  eitt þúsund tonna samdráttur í grálúðu og úthafsrækju.  Nokkur samdráttur er í ýmsum  af smærri kvótategundunum. 

Eins og undanfarin ár fá þrjár heimahafnir töluvert miklu meira úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Vestmannaeyjum en þau ráða fyrir 11,4% úthlutunarinnar samanborið við 10,6% í fyrra. Næstmest fer nú til Grindavíkur, eða 10,9% af heildinni samanborið við 11,0% á fyrra ári. Skip með heimahöfn í Reykjavík fá úthlutað 10,6% af heildinni samanborið við 11,6% í fyrra. 

Hér hafa þau tíðindi gerst að Reykjavík, sem hefur til fjölda ára verið sú höfn landsins þar sem mestu aflamarki er úthlutað til, fellur úr fyrsta sæti í það þriðja.

Fiskistofa vekur athygli á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Bent er sérstaklega á að engri loðnu var úthlutað að þessu sinni. 

Nánar má lesa um úthlutun ársins á vef Fiskistofu.