föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ágæt byrjun á úthafskarfavertíðinni

10. maí 2013 kl. 17:49

Úthafskarfi Mynd: Einar Ásgeirsson.

12 íslenskir frystitogarar komnir á miðin

Úthafskarfaveiðar íslenskra skipa máttu hefjast á miðnætti sl. og þegar stundin rann upp voru 12 íslenskir frystitogarar komnir á miðin og fóru trollin í sjó strax upp úr miðnættinu. Fjöldi erlendra skipa er á miðunum úti á Reykjaneshryggnum og líkt og oftast áður er veiðin gleggst í upphafi veiðitímabilsins 200 mílna lögsögumörkunum og þar rétt fyrir utan, að því er segir á vef HB Granda.


Fjögur skip HB Granda, Þerney RE, Örfisirey RE, Venus HF og Helga María AK, eru nú að úthafskarfaveiðum á landhelgislínunni eða rétt þar fyrir utan og að sögn Heimis Guðbjörnssonar, sem er skipstjóri á Helgu Maríu AK í veiðiferðinni, var fyrsta holið klárað laust fyrir kl. 16 dag.


,,Aflinn var um 20 tonn af karfa eftir 12 tíma hol eða rúmlega 1,5 tonn á togtímann. Það þykir gott að fá a.m.k. tonn á togtímann þannig að þetta er mjög góður afli,“ segir Heimir.


Að sögn Heimis hafa einir 15 rússneskir togarar, fjórir til fimm Spánverjar og svipaður fjöldi færeyskra og norskra togara verið á veiðisvæðinu við lögsögumörkin en þær upplýsingar segist hann hafa fengið hjá rússneskum skipstjóra í gær.


,,Það hefur orðið ein stór breyting og það örugglega til batnaðar frá í fyrra. Rússnesku skipin máttu hefja veiðar 26. apríl en samkvæmt reglugerð máttu þau aðeins veiða 15% heildarkvótans fram til 10. maí. Þetta virðist hafa verið virt og á meðan sum skipanna fóru með aflann til Íslands í millilöndun þá héldu önnur sjó hér í tvo til þrjá daga þar sem að þau máttu hefja veiðar að nýju um sl. miðnætti.“