laugardagur, 6. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ágæt veiði og þorskur troðinn af loðnu

Guðjón Guðmundsson
7. janúar 2021 kl. 10:04

Ottó N. Þorláksson á veiðum nýlega. Mynd/Bergþór Gunnlaugsson

Togaraflotinn heldur sig út af Vestfjörðum.

Stór hluti togaraflotans hefur verið í góðri veiði á Halamiðum og út af Vestfjörðum í fyrsta túr eftir áramót. Eitt þessara skipa er Ottó N. Þorláksson VE sem Ísfélagið í Vestmannaeyjum gerir út. Eftir tvo daga á veiðum var hann kominn með um 80 tonna afla. Mikil loðna er í þorskinum og kemur einnig upp með trollinu. 

Ólafur Jakobsson leysti af sem skipstjóri í þessum fyrsta túr ársins. Hann verður með styttra móti því planið var að koma með fisk til Eyja strax í dag, fimmtudag, til þess að vinnsla mætti hefjast á ný hjá Ísfélaginu. Ólafur segir að vegna þessa gefist ekki nema þrír sólarhringar við veiðar en tveir sólarhringar fara í stím á miðin.

Hafís nálgast

„Við vorum á Halanum en erum núna komnir vestur fyrir hann. Það var kaldafýla hérna í fyrradag en núna er bongóblíða og spáir bara vel. Það hefur fiskast ágætlega en samt verið dálítið rólegt hjá okkur í þorskinum. Við erum komnir með einhver 80-90 tonn af blönduðum afla á þessum tveimur sólarhringum. Við byrjuðum vestar í kantinum og fengum þar ufsa og ýsu og ýsu og þosk á Halanum,“ segir Ólafur.

Hafís er farinn að nálgast Halann og ákvað Ólafur að halda vestar í kantinn og reyna fyrir sér þar í ufsa og þorski áður en haldið yrði til Eyja á ný.

„Það er loðna í þorskinum og við sjáum hana líka í trollinu og bara í sjónum í kringum okkur. Þetta er svona ryk en það eru engar torfur sjáanlegar. Það er oft loðna hérna í kantinum á þessum árstíma og svo sem ekkert óvenjulegt við það. En þorskurinn er vel haldinn, þriggja til fjögurra kílóa fiskur. Það hefur verið slatti af öðrum bátum hérna í kringum okkur og allir að gera það ágætt virðist mér. Þetta er náttúrulega fyrsti túrinn á árinu og árið byrjar bara vel.“

Styttist í vertíð

Ísfélagið keypti Ottó N. Þorláksson af HB Granda í lok árs 2017. Skipið var smíðað hjá Stálvík í Garðabæ 1981 og hefur reynst Ísfélaginu vel frá því það kom til Eyja. Ólafur hefur verið stýrimaður allan þennan tíma og leyst Sigurð Konráðsson af sem skipstjóri.

„Þetta er ágætt skip en það er orðið dálítið fullorðið og veltur dálítið. Það er eðlilega ekki eins og nýju skipin en annars bara ágætt atvinnutæki og skilar björg í bú. Það hefur verið fínasta fiskverð og afkoma manna til sjós í góðu lagi. Það kvartar enginn undan því. Stundum fer eitthvað af fiski frá okkur á markað og það rífur afkomuna oft á tíðum upp. Yfirleitt fer allur karfi frá okkur út í gámum, aðallega á Þýskaland. En það er misjafn gangur á því hve mikið veiðist af honum. Við höfum mikið verið að eltast við ufsa en hann getur verið dyntóttur og oft erfitt að eiga við hann.“

Ólafur segir að þótt þessi fyrsti túr ársins sé með styttra móti til að komast vinnslunni í gang í landi þá styttist í vertíð.

„Þá verðum við bara að veiða í kartöflugörðunum heima.“