sunnudagur, 15. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ágætlega gengur á hörpudiskveiðum í Breiðafirði

1. október 2017 kl. 08:00

Leynir SH verið að fá 6-7 tonn á dagÁgætlega hefur gengið á hörpudiskveiðum í Breiðafirði en tveir bátar, Leynir SH og Hannes Andrésson SH, gerður út af FISK Seafood á Grundarfirði,  stunda þar rannsóknaveiðar. Leynir hefur verið að ná um 6-7 tonnum á dag í plóg en eins og Sigurður Þórarinsson skipstjóri orðar það þá er affarasælast að ganga hægt um gleðinnar dyr.


 


Heimilt verður að veiða 1.000 tonn í tilraunaveiðum á Breiðafirði á þessu fiskveiðiári en tilraunaveiðar hafa verið leyfðar núna í tvö ár. Í fyrra mátti veiða 700 tonn en meðal annars vegna sjómannaverkfallsins náðust ekki nema um 560 tonn.

Leynir hét áður Arnþór GK og var gerður út á snurvoð hjá Nesfiski. Fimm eru í áhöfn Leynis og hafa þeir verið við hörpudiskveiðar frá því í byrjun september.

Ekki verið á skel síðan 1995

„Þetta hefur gengið ágætleg. Við veiðum fast magn á dag sem er á bilinu 6-7 tonn á dag. Við stefnum að því að vera að þessu fram í miðjan janúar. Alls má veiða um 1.000 tonn en þessu er skipt niður á svæði. Svo fer það bara eftir því hvernig gengur að fiska þetta hvert framhaldið verður,“ segir Sigurður.

Þetta er í fyrsta skipti sem tveir bátar eru við rannsóknaveiðar á hörpudisk en í fyrra var Hannes Andrésson einn um hituna. Sigurður var áður með Gullhólmann sem S. Agustsson seldi til GPG fiskverkunar fyrir tveimur árum.

„Ég hef ekki verið við veiðar á skel síðan 1995. Við erum með hjólaplóg og skröpum fram og til baka allan daginn. Þetta skiptist niður í ein sex hólf, eitt út af Hvammsfirði og annað austur af Stykkishólmi og fjögur svæði austur af Flatey. Við núna um tvo hálfan tíma frá Stykkishólmi austur fyrir Flatey. Við höfum fengið fínt veður í september og ekkert upp á það að klaga.“

Þokkaleg afkoma

Sigurður segir veiðina misjafna eftir svæðum en ennfremur stendur til að leita nýrra svæða og skoða útbreiðsluna. En í raun megi segja að skelin haldi sig almennt á sömu svæðunum.

„Þetta er mikið til sex til sjö sentimetra stór skel sem er svipað og verið var að veiða hér á árum áður. Hlutfall skeljar undir 7 sentimetrum er lítið, kannski 10-15%. Smáskelin flokkast frá í plógnum þannig að við sjáum hana aldrei.“

Einhver afurðalækkun hefur verið frá því í fyrra en vel gengur að selja skelina. Helstu markaðir eru Bandaríkin, Kanada og Frakklands. Skelin er unnin hjá S. Agustssyni og kjötið fryst. Sigurður segir þokkalega afkomu af þessum veiðum fyrir áhöfnina og svo er frí á kvöldin. Farið er út kl. sex á morgnana og landað yfirleitt um sex síðdegis.

„Mér líst ágætlega á framhaldið en menn verða að ganga hægt um gleðinnar dyr. Ég held að það sé lítið mál að hreinsa þetta upp ef ekki er farið varlega meðan þetta er að komast á skrið á ný. Það er ómögulegt að segja til um framhaldið. Maður hefur ekki hugmynd um hvernig þetta kvikindi hagar sér. En það virðist vera ágæt nýliðun. Miðað við það sem hefur komið í lirfusafnara virðist hrygning hafa tekist vel. Svo er það bara spurning hvernig ungviðið kemst af í hafinu,“ segir Sigurður.