sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ágætar markaðshorfur fyrir síldarafurðir

19. júní 2009 kl. 15:00

Góðar horfur eru á mörkuðum fyrir síldarafurðir nú í upphafi veiða á norsk-íslensku síldinni, að því er Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir í samtali við Fiskifréttir, sem fylgja Viðskiptablaðinu.

Hjá Síldarvinnslunni eru aðallega frystir flapsar fyrir Austur-Evrópumarkað. Gunnþór segir að síldin seljist ágætlega þrátt fyrir efnahagsþrengingar margra ríkja í austri enda sé síldin ódýr vara. Verð á frosinni síld hefur verið nokkuð stöðugt í erlendri mynt en hefur þó heldur hækkað. Skilaverð er í kringum 900-1.100 dollarar á tonnið.

Mikil áhersla er lögð á vinnslu á síld til manneldis en eitthvað fer beint í bræðslu fyrir utan afskurð og það sem flokkast frá við vinnslu. Verð á fiskimjöli hefur verið mjög hátt í langan tíma í sögulegu samhengi. Gunnþór segir að lítil breyting sé á því. Hátt verð var einnig á lýsi fyrir nokkrum misserum en verðið féll á síðasta ári. Það hefur heldur hækkað á ný þótt langt sé frá því að það hafi náð fyrri hæðum.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.