sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhættumat erfðablöndunar verður óbreytt um sinn

5. júlí 2018 kl. 12:19

Tilraunir verða gerðar með að sleppa norskættuðum eldisseiðum lausum í hafbeitaraðstöðu á Vestfjörðum og Austfjörðum. Frekari rannsóknir verða gerðar í Ísafjarðardjúpi.

Hafrannsóknarstofnun hefur ákveðið að breyta ekki að sinni áhættumati vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.

Þessi ákvörðun er tekin meðal annars vegna þess að í núgildandi lögum er ekki að finna heimild til að draga úr eldi sem leyft hefur verið á grunni áhættumats, reynist leyfilegt eldi vera of mikið. 

Stofnunin telur að við núverandi aðstæður sé ekki ráðlegt að breyta áhættumatinu, og vísar til þess að frumvarp til laga um breytingar er varða fiskeldi varð ekki að lögum á nýliðnu þingi. Í þessu frumvarpi var að finna heimild til þess að draga úr eldi sem leyft hafi verið á grunni áhættumats.

Þetta varð niðurstaða ráðgjafanefndar fiskeldis, sem taka átti afstöðu til óska um að stofnunin endurskoði áhættumatið. Þær óskir höfðu meðal annars komið fram frá Landsambandi fiskeldisstöðva.

Hafrannsóknarstofnun greinir frá þessari niðurstöðu í tilkynningu í dag. Þar segir einnig að stofnunin hafi í hyggju að gera frekari rannsóknir til að styrkja vísindalegan grundvöll áhættumatsins.

„Meðal annars þarf að gera rannsókn á hvort sá norskættaði stofn sem hér er notaður í fiskeldi lifir af sjávardvöl við Ísland. Þetta yrði gert með rannsóknum þar sem seiðum af eldisstofninum yrði sleppt í hafbeitaraðstöðu á Vestfjörðum og á Austfjörðum. Rannsóknin yrði takmörkuð að umfangi og seiðum af íslenskum stofnum sleppt til samanburðar,“ segir í tilkynningunni.

„Þá hefur stofnunin í hyggju að gera takmarkaða tilraun í Ísafjarðardjúpi til að rannsaka ákveðna þætti í fiskeldi í samvinnu við eldisfyrirtæki. Tilraunin yrði takmörkuð í magni við hámark 3.000 tonn af frjóum laxi og til 5 ára. Umhverfisþættir yrðu mældir sérstaklega og þá yrði umhverfi kvíanna vaktað sérstaklega með tilliti til lífríkis. Í eldinu yrðu vaktaðir almennir þættir eins og lifitala, vöxtur og kynþroski. Þá yrðu allir laxar merktir sérstaklega til að þeir þekkist ef þeir sleppa og koma fram í ám og yrðu árnar við Ísafjarðardjúp vaktaðar sérstaklega. Sérstakar rannsóknir færu fram á laxalús bæði í kvíunum og í villtum laxfiskum, en laxalús er víða mikið vandamál. Einnig yrðu aldir í tilrauninni ófrjóir laxar til samanburðar við frjóa laxa. Nánari rannsóknaráætlanir eru í vinnslu en gert er ráð fyrir að rannsóknir hefjist vorið 2019.“

Tilkynninguna frá Hafrannsóknarstofnun má lesa hér.

gudsteinn@fiskifrettir.is