sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhrif dragnótaveiða á botndýralíf í Skagafirði könnuð

19. nóvember 2008 kl. 11:03

Dagana 14. – 18. október var farið í leiðangur á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar í þeim tilgangi að kanna áhrif dragnótaveiða á botndýralíf í Skagafirði. Sýnataka tókst ágætlega.

Úrvinnsla sýna og myndefnis er þegar hafin og vonast er til að niðurstöður gefi fyrstu hugmyndir um hugsanleg áhrif dragnótar á vistkerfi botnsins svo og hvernig standa ber að frekari rannsóknum.

Dragnótarbáturinn Hafborg EA frá Grímsey var notaður til verkefnisins. Leiðangursstjóri var Haraldur Einarsson og skipstjóri Guðjón Óli Þorláksson.

 Áhrif dragnótar á botndýralíf eru ekki þekkt og því er áhugavert að hefja rannsókn eins og þá sem hér um ræðir. Dragnótaveiðar eru aðallega stundaðar á mjúkum og sléttum botni og því geta þær hugsanlega haft áhrif á lífríki botnsins, bæði þau dýr sem eru ofan á botninum og þau sem lifa niðurgrafin í setinu.

Rannsóknirnar fóru þannig fram að sýnum var safnað á svæði í firðinum þar sem dragnótaveiðar hafa verið stundaðar og til samanburðar einnig á svæði þar sem dragnótaveiðar hafa aldrei farið fram.

Botngreip var notuð til þess að safna sýnum af dýrum sem halda sig ofan í botnsetinu, botnsleði til að safna dýrum sem halda sig ofan á botni og dragnót til að fá vitneskju um magn og tegundasamsetningu fiska á svæðinu.

Auk þess var upplýsingum um botndýralíf safnað með neðansjávarmyndatökum, bæði kyrrmyndum og kvikmyndatökum.

 Frá þessu er skýrt á vef Hafró.