laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Akranes til Þorlákshafnar í fyrsta skipti

Svavar Hávarðsson
14. janúar 2020 kl. 15:02

Frá og með janúar verða tvö skip í millilandasiglinum með viðkomu í Þorlákshöfn. Mynd/Elliði Vignisson

Elliði Vignisson bæjarstjóri vonast til að fljótlega verði nýtt dráttar- og björgunarskip keypt. Næsta stóra skref er breyting á höfninni, að hans sögn. Þá verði hægt að taka á móti stærri skipum og farþegaferjum í siglingum milli Íslands og Evrópu.

Ný vöruflutningaferja fyrirtækisins Smyril Line kom í fyrsta skipti til hafnar í Þorlákshöfn í morgun. Ferjan mun stunda áætlunarsiglingar milli Þorlákshafnar og Hirtshals í Danmörku með viðkomu í Færeyjum. Ferjan ber nafnið Akranes.

Nýja ferjan bætist við fjögurra skipa flota Smyril Line. Hin skipin eru Norræna, Hvítanes, Eystnes og Mykines. Akranes er systurskip Mykines, sem hefur reynst mjög vel í siglingum milli Þorlákshafnar og Rotterdam.

Akranes, sem bar áður nafnið Bore Bank, var byggt árið 1998 í UMOE skipasmíðastöðinni í Noregi. Skipið er 138 metra langt, 23 metra breitt, 10.000 tonn og tekur 100 vöruflutningavagna í hverri ferð. Það var áður í eigu finnska skipafélagsins Bore, sem er hluti af Spliethoff samstæðunni og var þá í siglingum á Eystrasaltinu. Skipið verður skráð í Færeyjum og verða 24 í áhöfn.

Samvinnan markviss og góð

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfussi, segir í spjalli við Fiskifréttir að samvinnan við Smyril Line hafi verið með eindæmum góð og markviss. 

„Á stuttum tíma hefur það skilað gríðarmiklum tækifærum fyrir bæði okkur sem samfélag og ekki síður í því er lítur að tækifærum fyrirtækja hér á landi til verðmætasköpunar. Sigling héðan er umtalsvert styttri og kostnaður og kolefnisspor því talvert lægri. Þar við mætist sveigjanleiki hvað tímasetningar varðar og margt fleira.“

Elliði minnir á að bak við skref sem þetta sé ótrúleg vinna og djarfar ákvarðanir hjá Smyril Line og þeirra öflugu starfsmönnum. 

„Hlutverk okkar hjá sveitarfélaginu er að veita þeim stuðning í því sem að aðstöðunni hér snýr og halda áfram innviðauppbyggingu hafnarinnar. Þannig náum við í sameiningu áframhaldandi vindi í seglin og þannig styrkist bæði fyrirtækið og samfélagið hér.“

Aðeins byrjunin

Elliði segir að þrátt fyrir þetta skref sé það aðeins upphafið.

„Við munum vonandi á næstu vikum ganga frá kaupum á nýju dráttar- og björgunarskipi sem treystir þjónustu okkar enn frekar.  Næsta stóra skref er svo breyting á höfninni sem gerir okkur mögulegt að taka á móti stærri skipum en nú er og gera þar með mögulegt að taka upp siglingar á farþegaferjum milli Íslands, Bretlands og meginlands Evrópu.  Tækifærin hér eru mikil og við ætlum að nýta þau. Þar munar miklu að eiga að fyrirtæki eins og Smyril Line.