sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ákvörðunum MSC um framhald vottana frestað vegna Covid-19

Guðsteinn Bjarnason
22. maí 2020 kl. 10:00

Beitir á kolmunnaveiðum. MYND/Helgi Freyr Ólason

Staða MSC-vottana fyrir veiðar kolmunna og makríls skýrist á næstu vikum. Góðar horfur eru á að vottun grásleppuveiða verði endurheimt.

Nokkur óvissa er um framhald MSC-vottunar fyrir veiðar úr uppsjávarstofnunum á Norðaustur-Atlantshafi. Makrílveiðar misstu vottun snemma á síðasta ári þar sem núverandi veiðiálag er of mikið fyrir endurnýjun stofnsins sem hefur farið minnkandi, sem sýnir að fiskveiðistjórnunin virkar ekki og vegna þess að strandríkin hafa ekki getað komið sér saman um stýringu á veiðunum.

Kristinn Hjálmarsson, verkefnastjóri Icelandic Sustainable Fisheries (ISF), segir bæði loðnuna og íslensku síldina vera á góðu róli, með vottanir frá MSC, en ófullnægjandi veiðistjórnun valdi því að makríllinn verður að óbreyttu óvottaður áfram, kolmunninn stefnir sömu leið og norsk-íslenska vorgotssíldin að öllum líkindum einnig.

„Þrír stóru uppsjávarstofnarnir virðast vera að fara á ís og það er vegna þess að strandríkin ná ekki saman um skiptingu veiðanna. Samkvæmt vísindunum þá þola stofnarnir ekki veiðiálagið, sem er ofveiði, úrlausnarferli ágreiningsins er ekki gegnsætt og virkar ekki.“

Bretland brátt í hóp strandríkja

Hvað íslensku síldina varðar þá segir Kristinn að þar muni vottunin væntanlega haldast og allar líkur séu á því að íslenska vorgotssíldin fái einnig vottun síðar á árinu.

Á síðasta ári fengu strandríkin, sem eru Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar ásamt Íslandi og Grænlandi, og nú bætist Bretland við eftir Brexit, eitt ár til að laga fiskveiðistjórnun makríls.

„Ef fiskveiðistjórnun kemst ekki í lag á næstu mánuðum, þá munu þessar veiðar endanlega missa sína vottun. Við fáum næstu skýrslur til yfirferðar og til að bregðast við í júní og sjáum þá betur hver staðan er.“

Sem fyrr segir eru blikur einnig á lofti varðandi kolmunnaveiðar.

„Veiðarnar gætu fallið á prófinu, vegna vandamála við ákvarðanatökuferlin í fiskveiðistjórnuninni. Við fáum skýrslu til að vinna með síðar í þessum mánuði,“ segir Kristinn.

Bjartsýnn á gráslepppuvottun

Kristinn segist hafa verið orðinn vongóður um að vottun grásleppuveiða yrði endurheimt í ár, en hún var afturkölluð í ársbyrjun 2018. Helsta ástæða þess að vottunin var numin úr gildi var að landselastofninn var orðinn illa staddur og meðafli grásleppubáta í landsel þótti of hátt hlutfall af stofninum.

Landselastofninn hefur hins vegar verið að braggast, er orðinn hátt í tíu þúsund dýr og þar með kominn nálægt stjórnunarmarkmiðum upp á 12 þúsund dýr, en verður talinn aftur í ár.

Einnig hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að koma í veg fyrir að landselur komi í net grásleppusjómanna. Þær aðgerðir hafa verið ákveðnar í náinni samvinnu við grásleppusjómenn, og þar á meðal eru lokanir svæða og aukið eftirlit á vegum Fiskistofu.

„Því miður gæti covid valdið einhverjum hnökrum á þessu, þar sem 5% eftirlitið sem átti að fara fram í ár, varð ekki en það hefði gefið gríðarlega góða mynd af veiðunum og ekki síst það ef veiðarnar færu umfram ráðgjöf akkúrat í ár. Það eru gríðarlegir hagsmunir fyrir alla sem koma að grásleppu að veiðarnar standi vottun um sjálfbæra ástundun. Helstu markaðir fyrir grásleppuhrogn fara fram á MSC vottun og þessir markaðir gætu haldið áfram að lokast. Þetta leit vel út, en svo kom þessi feikna veiði í ár sem leiðir til veiða umfram ráðgjöf og það skýrist á næstu dögum hvort það sleppi eða kosti mögulega vottunina.“

Kristinn Hjálmarsson. Aðsend mynd