þriðjudagur, 18. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aldrei minni hafís í Norður-Íshafinu á þessum tíma

31. maí 2016 kl. 11:11

Eiginlegt bráðnunartímabil þó ekki hafið

Samkvæmt vísindamönnum hefur hafísbreiðan á Norðuríshafinu aldrei verið minni á þessu árstíma. Þetta eru þeim mun válegri tíðindi í ljósi þess að sá árstími er rétt runninn í garð sem bráðnun hefst að ráði á þessum slóðum.

Vísindamenn velta því nú fyrir sér hve mikið verði eftir af hafísbreiðunni þegar vetur gengur í garð á ný. Þetta er minnsta magn hafíss á þessum árstíma frá því mælingar hófust með gervitunglatækni árið 1978.

Greint er frá þessu í grænlenska vefmiðlinum sermitsiaq.ag. Þar er haft eftir vísindamönnum að þessi ógnvekjandi þróun sé í takt við hækkandi lofthita um allan heim samkvæmt skráningunum á hitastigi sem fara fram í hverjum mánuði. Þannig hefur aldrei mælst jafnhár lofthiti á jörðinni í apríl. Vísindamenn benda á að það auki líkurnar á því að nýtt hitamet verði slegið á árinu 2016.

 

Útbreiðsla hafíss í Norðuríshafinu hefur verið lítil alveg frá árinu 2007 en þó sérstaklega undanfarin fjögur ár.