mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Algjört ýsuveiðibann hugsanlegt

8. júní 2012 kl. 13:24

Ýsa veidd á línu. (Mynd: Alfons Finnsson).

Líkur eru á að hrygningarstofn ýsu fari niður fyrir hættumörk á næstu árum.

 

Ýsustofninn hefur minnkað hratt á síðustu árum vegna lélegrar nýliðunar ár eftir ár. Líkur eru á að hrygningarstofn ýsu fari niður fyrir sögulegt lágmark (hættumörk) þegar árgangarnir frá 2008-2011 koma inn í hrygningarstofninn, að því er fram kemur í nýbirti skýrslu Hafrannsóknastofnunar. 

,,Þetta gæti kallað á stöðvun ýsuveiða hér við land,“ sagði Jóhann Sigurjónsson forstjóri stofnunarinnar á blaðamannafundi í morgun. Fram kom að nýliðun í ýsustofninn við Færeyjar hefði verið léleg í sjö ár og þar hefði verið lögð til algjör stöðvun veiða. Umhverfisástæður eru taldar meginskýringin á lélegri nýliðun í ýsustofnunum bæði hér við land og við Færeyjar. 

Ýsustofninn við Ísland var í sögulegu hámarki á árunum 2004-2008 en hefur minnkað ört þar sem stórir árgangar eru að hverfa úr stofninum.

Ýsuaflinn á árunum 2003-2008 var á bilinu 96-110 þúsund tonn.  Á núverandi fiskveiðiári er kvótinn 45.000 tonn, en Hafró leggur til að hann verði minnkaður í 32.000 tonn á því næsta.