þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allt að 75% veiði umfram ráðgjöf í löngu

13. febrúar 2011 kl. 10:00

Lönguveiðar. (Mynd: Alfons Finnsson)

Þarf að koma böndum á sóknina, segir fiskifræðingur á Hafró

Verulegur munur er á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í löngu og keilu og endanlegum afla í þessum tegundum. Þetta kom fram í fróðlegu erindi sem Guðmundur Þórðarson fiskifræðingur flutti nýlega á málstofu Hafró um löngu og keilu á Íslandsmiðum.

Fram kom hjá Guðmundi að aflinn í löngu fiskveiðiárið 2008/2009 hefði verið um 75% meiri en Hafró ráðlagði og 50% meiri en stjórnvöld ákváðu. Keiluafli umfram ráðgjöf er einnig verulegur en ekki munar eins miklu og í löngu. ,,Skýringarnar á þessu eru tvær. Í fyrsta lagi er ekki tekið tillit til veiða útlendinga í úthlutuðum afla, sem er skrýtið því vitað er um þessar veiðar fyrirfram. Í öðru lagi nýta menn sér reglur um tegundatilfærslur,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur sagði í lokin að báðir stofnarnir, langa og keila, virtust vera í góðu ástandi. ,,Framreikningar benda til þess að stofnarnir muni vaxa á næstu árum að því gefnu að það takist að koma böndum á sóknina. Því er brýnt að aflinn verði ekki umfram ráðgjöf eða úthlutun. Í því skyni þarf meðal annars að gera ráð fyrir afla útlendinga inni í úthlutuninni og setja þak á tegundatilfærslu, líkt og Hafrannsóknastofnun hefur ítrekað bent á í skýrslum sínum,“ sagði Guðmundur Þórðarson.