laugardagur, 25. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allt annar bragur á vertíðinni í ár

23. ágúst 2019 kl. 15:00

Grásleppuveiðar gengu vel og hátt verð fékkst fyrir afurðir

Grásleppuvertíðinni þetta árið lauk 12. ágúst með veiðum báta í innanverðum Breiðafirði. Vertíðin gekk vel og á það jafnt við aflabrögð og verð til sjómanna.

Þetta er mat Landssambands smábátaeigenda og kemur fram í frétt þeirra.

Heildarafli grásleppubáta varð 4.952 tonn eða aðeins 147 tonnum umfram það sem Hafrannsóknastofnun lagði til. Stýring heildarafla á vertíðinni, útfrá ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, tókst því afbragðs vel, er mat Landssambandsins.

Hver bátur hafði heimild til veiða í 44 daga, en fjöldi daga ár hvert er ákveðinn m.t.t. áætlunar um þátttöku í veiðunum og aflabragða.

Mun hærra afurðaverð

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir allt annan brag yfir vertíðinni núna en í fyrra.

„Grásleppuvertíðin var góð miðað við í fyrra. Þá skilaði vertíðin okkur einum milljarði króna í aflaverðmæti en þau nálgast það að vera 1,5-1,6 milljarður á þessari vertíð. Afurðarverðið er mun hærra og hefur hækkað um 40% frá því í fyrra. Það munar miklu um það. Svo fiskaðist líka meira. Aflinn jókst á milli ára um nálægt 10% sem í tonnum talið er tæplega 500 tonn. Menn eru því glaðir með niðurstöðuna núna því vertíðin þótti nú ekkert sérstök í fyrra,“ segir Örn.

Eins og Fiskifréttir greindu frá í vor þá var strax vitað að verð á afurðum myndi hækka umtalsvert frá því árið á undan. Tölur Landssambandsins hljóða því upp á að aflaverðmæti þeirra 240 báta sem stunduðu veiðarnar í ár sé rúmlega helmingi hærra en á síðustu vertíð, að ætla má.

40 hafnir

Alls var grásleppu landað á fjörutíu höfnum allt í kringum landið á vertíðinni. Sú löndunarhöfn sem bar höfuð og herðar yfir aðrar var Stykkishólmur þar sem 1.091 tonni var landað. Þar á eftir komu Drangsnes með 354 tonn, Bakkafjörður með 294 tonn og Brjánslækur með 236 tonn.