miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allt gengur að óskum eftir breytingar

7. október 2019 kl. 10:20

Kaldbakur EA er eitt nýrra skipa Samherja. Mynd/LHG

Kaldbakur EA fór í sína fyrstu veiðiferð snemma í september mánuði að aflokinni uppsetningu á nýjum vinnslubúnaði.

Kaldbakur EA fór í sína fyrstu veiðiferð snemma í september mánuði að aflokinni uppsetningu á nýjum og fullkomnum vinnslubúnaði frá Slippnum Akureyri.

Búnaðurinn í vinnslunni hefur reynst vel að sögn Angantýs Arnars, annars tveggja skipstjóra á Kaldbaki EA, eins og segir frá í frétt á heimasíðu Slippsins.

„Við erum mjög ánægðir með nýja vinnsludekkið, gæði aflans eru mikil og vinnslan gengur hratt og örugglega fyrir sig. Sniglakörin koma vel út, bæði hvað varðar blóðgun og kælingu og engir hnökrar hafa verið á lestarkerfinu, það er mikill munur að geta karað fiskinn upp á vinnsludekkinu. Þau litlu vandamál sem hafa komið upp höfum við leyst í sameiningu með Slippnum og hefur eftirfylgni þeirra með búnaðinum verið til fyrirmyndar,” segir Angantýr Arnar.

Ólafur Ormsson, sviðsstjóri hjá Slippnum, segir það afar ánægjulegt að Kalbakur fari vel af stað.

„Við hönnun á vinnsludekkinu var lögð áhersla á að gera alla vinnsluna um borð hagkvæma, auðvelda í þrifum og þannig tryggja framúrskarandi aflameðferð. Áreiðanleiki alls búnaðarins skiptir einnig gríðarlegu máli og er vandlega gætt að honum. Samstarfið með Samherja í þessu verkefni hefur gengið mjög vel og er ánægjulegt að sjá hversu vel vinnsludekkið hefur verið að reynast,” segir Ólafur.