mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Argir út í Damanaki

18. desember 2013 kl. 12:20

Maria Damanaki

Norskir og breskir hagsmunaaðilar deila hart á sjávarútvegsstjóra ESB.

Talsmenn hagsmunaðila í sjávarútvegi í Noregi og Bretlandi eru hneykslaðir á því tilboði sem María Damanaki sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins gerði Færeyjum í ferð sinni til þangað í síðustu viku. 

„Damanaki var auðmýkt“ segir í fyrirsögn í Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi í dag, þar sem vísað er til þess að færeyski sjávarútvegsráðherrann, Jacob Vestergaard, hafi  hafnað tilboði hennar um 11,9% kvótahlut í makrílveiðunum, en hlutur Færeyinga var 5% þegar samningar voru síðast í gildi. Sjálfir krefjast þeir 15% hlutar. 

„Ég vona að Damanaki hafi lært eitthvað af þessum óheppilega einleik sínum því það eru fiskimenn í ESB og Noregi sem tapa á þessu einhliða samningsútspili,“ segir Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtaka norskra útvegsmanna (Fiskebaat). 

Í breska blaðinu Fishing News segir að orðrómur sé um að auk tilboðsins um 11,9% hlut hafi Damanaki boðið að Færeyingar gætu tekið 40% kvóta síns í ESB-lögsögunni. Martin Howly formaður sjómannasamtakanna í Killybegs á Írlandi segir það beinlínis glæpsamlegt að bjóða upp á slíkt enda vonlaust að fylgjast með slíkum veiðum. „Ef makríllinn er í færeyskri lögsögu, hvers vegna eru Færeyingar þá svona andskoti uppteknir af því að fá aðgang að ESB-lögsögunni? Ekki erum við að biðja um aðgang að þeirra lögsögu,“ segir Howley í Fishing News.