mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ásættanlegur fyrsti dúr en veður snarvitlaust

9. janúar 2020 kl. 13:40

Akurey AK. Mynd/Brim

Akurey AK landaði 135 tonnum eftir fyrsta túr ársins - afar erfiðar aðstæður til veiða en kropp þegar dúraði.

„Ég er nokkuð sáttur við aflabrögðin í þessum fyrsta túr ársins. Veðrið var reyndar lengst af snarvitlaust en það dúraði á milli og þá gátum við verið að veiðum,“ segir Magnús Kristjánsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK, eftir fyrstu veiðiferð ársins. Togarinn kom til Reykjavíkur í fyrrinótt og fer aftur á miðin seinni partinn í dag.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins.

„Við vorum á Vestfjarðamiðum í veiðiferðinni. Við fórum lengst austur í Þverál en þar var aflinn aðallega þorskur. Mér finnst þorskurinn þar vera frekar smár og við fórum úr Þverálnum á Halamið. Því miður virðist þorskurinn ekki vera mættur af neinum krafti á miðin en við náðum þó að kroppa upp nokkuð af þorski og ufsa í bland. Við enduðum veiðar svo í Víkurálnum en þar var góð gullkarfaveiði og eins fengum við þorsk og ufsa,“ segir Magnús en segir að lítið hafi orðið vart við loðnu í túrnum, hvorki sem fæðu fisk eins og þorsks eða ánetjaða í trollinu.

Sem fyrr segir var leiðindaveður lengst af veiðiferðinni en heildaraflinn náði þó 135 tonnum.

„Versta veðrið skall á okkur á heimleiðinni í gær. Það voru um 25 til 30 metrar á sekúndu að vestan þegar við komum inn á Faxaflóann og heimsiglingin reynst frekar erfið,“ segir Magnús.