mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ástralskur ráðherra hyggst banna veiðar risatogara

12. september 2012 kl. 09:46

Risatogarinn umdeildi

Hafði áður fengið veiðileyfi í lögsögu landsins.

 

Miklar deilur hafa staðið í Ástralíu eftir að fréttist að til stæði að flagga risatogaranum Margiris til landsins og gera hann út á veiðar í lögsögunni á vegum ástralskrar útgerðar. Togarinn er nú kominn til Ástralíu, er kominn á ástralskt flagg og hefur fengið nafnið Abel Tasman

Útgerðin hafði fengið veiðileyfi fyrir togarann hjá stjórnvöldum og 18.000 tonna kvóta af makríltegundinni hrossastirtlu en nú er útlit fyrir að ekkert verði af veiðunum. Ástæðan er sú að umhverfisráðherra Ástralíu, Tony Burke, hefur tilkynnt að hann muni leggja fram frumvarp í þinginu sem geri honum kleift að koma í veg fyrir veiðar skipsins þar til frekari vísindarannsóknir hafi verið gerðar á áhrifum þeirra á lífríkið. Þar er m.a. nefnt að selir, höfrungar og aðrar tegundir geti komið í veiðarfærið sem meðafli. 

Almennt séð virðist rótgróin tortryggni í garð svona stórs veiðiskips ráða miklu um afstöðu ráðherrans því hann segist taka mið af því að fólk hafi áhyggjur af umhverfislegum, þjóðfélagslegum og efnahagslegum áhrifum fiskiskips af þessari stærð.