föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aukning í rækjuveiðum í Barentshafi

Guðjón Guðmundsson
2. mars 2019 kl. 12:00

Ilivileq, sem var í eigu Arctic Prime, dótturfélags Útgerðarfélags Reykjavíkur, var seldur til Norebo í Rússlandi. Mynd/Þorgeir Baldursson

Árið 2017 veiddu norsk og rússnesk skip samtals um 10.000 tonn af rækju í Barentshafi.

Framkvæmdastjórn rússnesku hafrannsóknastofnunarinnar, VNIRO, hefur lagt til mikla aukningu á veiðum á kaldsjávarrækju í Barentshafinu fyrir yfirstandandi ár. Samkvæmt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, mátti veiða 70.000 tonn á þessu ári úr öllu Barentshafi en ráðgjöfin VNIRO hljóðar upp á 90.000 tonn sem er 28,5% aukning frá ráðgjöf ICES. Síðastliðinn áratug hefur árleg rækjuveiði úr Barentshafinu aldrei farið yfir 30.000 tonn.

Árið 2017 veiddu norsk og rússnesk skip samtals um 10.000 tonn af rækju í Barentshafi en skip frá Evrópusambandinu, Grænlandi og Færeyjum samtals um 20.000 tonn.

VNIRO segir stöðugleika rækjustofnsins í Barentshafi réttlæta þessa ráðgjöf. Ráðgjöfin fyrir rússneska hluta Barentshafsins fyrir 2019 er 28.000 tonn en veidd voru 11.700 tonn á síðasta ári. Ráðgjöfin gerir því ráð fyrir rúmlega 30% aukningu á veiðum.

Mikil aukning hefur orðið í heild í rækjuveiðum Rússa á sama tíma og innflutningur á rækju til landsins hefur dregist saman. Á síðasta ári nam rækjuaflinn af öllum svæðum 30 þúsund tonnum en hann var 22 þúsund tonn árið 2017. Þetta er 36% aukning á einu ári.

Skálaberg og Brimnes á rækju

Aukningin er einkum tilkomin vegna aukinna veiða í Barentshafi sem fóru úr 3.700 tonnum 2017 í 11.700 tonn á síðasta ári. En veiðar jukust einnig á austlægum hafsvæðum Rússa. Utan efnahagslögsögunnar jukust veiðarnar einnig. Veiðar í erlendum efnahagslögsögum fóru úr nánast engu í 373  tonn og úr 111 tonnum í 430 tonn á alþjóðlegum hafsvæðum.

Innflutningur á rækju dróst saman úr 21.000 tonni 2014 í níu þúsund tonn árið 2017 vegna aukinna veiða Rússa. Árið 2017 voru fjórir rækjutogarar við veiðar í Barentshafi en tíu á síðasta ári. Þetta er meðal annars rakið til notkunar eldri skipa sem hafa misst hlutverk sitt í endurnýjun rússneska skipaflotans. Nokkur fyrirtæki hafa líka keypt skip frá Íslandi og Grænlandi, t.a.m. Norebo sem keypti Brimnes og Ilivileq og gerir þau út á rækjuveiðar.