sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

AVS-sjóðurinn úthlutar 320 milljónum króna

19. maí 2008 kl. 11:54

Nú liggur fyrir úthlutun AVS rannsóknasjóðsins fyrir árið 2008. Ákveðið hefur verið að styrkja 64 verkefni að þessu sinni með samtals um 320 m.kr. en umsóknir voru 130 talsins.

Sjóðurinn hefur aldrei verið eins öflugur, en ráðstöfunarféð var 100 m.kr. meira nú en á síðasta ári eða samtals rúmar 350 m.kr.

Af þeim 64 verkefnum sem styrkt að þessu sinni eru fimm forverkefni eða smáverkefni, en fyrr á árinu voru styrkt 10 forverkefni þannig að heildarfjöldi styrkja 2008 er orðinn 74.

Eins og undanfarin ár eru umsóknir metnar í fjórum faghópum AVS sjóðsins þar sem teknar eru fyrir umsóknir sem taka á fiskeldi, líftækni, markaði og svo umsvifamesta flokknum sem tekur á umsóknum er falla að veiðum og vinnslu.

Mest áberandi meðal fiskeldisverkefnanna er „Kynbætur í þorskeldi og seiðaeldi“, en miklar væntingar eru um að þorskeldi geti átt mikilvæga framtíð hér á landi og því nauðsynlegt að leggja mikla áherslu á kynbætur og öflugt seiðaeldi.

Sjóðurinn hefur einnig styrkt allnokkur verkefni er taka á öðrum þáttum þorskeldis. Verkefni til að styrkja markaðssetningu eldisbleikju eru einnig áberandi, enda afar mikilvægt að þessi íslenska eldistegund nái að skapa sér verðmætan sess á erlendum mörkuðum.

Til líftækniverkefna fara nokkuð hærri styrkir en undanfarin ár, sem sýnir að mikill kraftur er í rannsókna- og þróunarverkefnum á þessu sviði. Hugmyndir eru meðal Skagstrendinga, BioPol að fullnýta grásleppuna, og lífefnafræðingar hjá Matís ætla sér að vinna lífvirk efni úr m.a. sæbjúgum, svo eitthvað sé nefnt.

Markaðsverkefnin eru öllu færri nú en oft áður en segja má að bleikjumarkaðsverkefnin sem talin eru upp með fiskeldinu vegi það upp þannig að í heildina halda markaðsverkefnin sínum hlut.

Veiða- og vinnsluumsóknir voru óvenju margar þetta árið enda er hér tekið á nánast öllu sem tengist hefðbundinni fiskvinnslu, allt frá veiðum til fullgerðar vöru. Þarna er m.a. að finna verkefni sem fjalla um makríl, gildruveiðar á þorski, veiðar og vinnslu á lifandi kúfskel, lágmörkun olíunotkunar fiskiskipa, næringar- og hollustuefni í íslenskum sjávarafurðum, svo eitthvað sé nefnt. Innan tíðar verða settar inn nánari upplýsingar um öll þessi verkefni á heimasíðu sjóðsins.

Hér má sjá lista yfir umsóknir sem hlutu styrk 2008.