miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bæta fjórum línuskipum við 10 nýja togara

Guðjón Guðmundsson
12. september 2020 kl. 09:00

Kapitan Sokolov hefur verið sjósettur hjá Severnaya Verf skipasmíðastöðinni í Pétursborg. Skipið er tæpir 82 metrar á lengd og 16 metrar á breidd. Aðsend mynd

Kapitan Sokolov, fyrsta af 10 Nautic-skipum Norebo, sjósettur í Pétursborg. Íslendingar í mörgum lykilstöðum fyrirtækisins.

Kapitan Sokolov, fyrsti flakafrystitogarinn í röð 10 nýsmíða Norebo í Rússlandi, var sjósettur í Pétursborg í síðustu viku. Tengingar þessara tíu hátæknivæddu skipa við Ísland eru fjölmargar. Hönnun skipsins var í höndum skipahönnunarfyrirtækisins Nautic, ýmiss búnaður kemur frá Naust Marine og frystikerfi frá Kælismiðjunni Frost. Þá eru Íslendingar í mörgum lykilstöðum fyrirtækisins.

Framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu er Sturlaugur Haraldsson, en sölustjórar hjá fyrirtækinu eru þeir Kristján Hjaltason og Andri Geir Alexandersson. Magnús Kristjánsson og Steindór Sverrisson eru þar gæðastjórar.

Norebo er risavaxið útgerðarfyrirtæki á heimsvísu og það stærsta í Rússlandi. Innan raða samstæðunnar eru 16 sjávarútvegsfyrirtæki. Flotinn telur 45 skip og þar af eru fjórtán gerð út til veiða á þorski og ýsu í Barentshafi. Skipin tíu sem byggja á hönnun Nautic munu leysa eldri skip af hólmi. Sennilega mun þó fækka í Barentshafsflotanum þar sem nýju skipin eru umtalsvert afkastameiri en þó um leið sparneytnari. Fjárfesting Norebo í þessum tíu skipum nemur um 690 milljónum dollara, tæpum 95 milljörðum ÍSK.

Í byrjun þessa árs tók Norebo jafnframt ákvörðun um að láta smíða fyrir sig fjögur 63 metra löng línuskip með vinnslu.   Línuskipin munu stunda veiðar á Kyrrahafsþorski en í dag gerir Norebo út 8 línuskip frá Petropavlovsk, Kamchatka.  Stefnt er að því að smíði nýju skipanna hefjist á næsta ári og þau verði afhent Norebo allt fram til ársins 2025. Þau verða, eins og flakatogararnir, smíðaðir í Severnaya Verf skipasmíðastöðinni í Pétursborg. Nautic er í samningaviðræðum við Norebo um hönnun þessara fjögurra skípa.

Marel og Skaginn 3X

„Við reiknum með að Kapitan Sokolov fari til veiða með vorinu. Það er sérsmíðað til þess að þola krefjandi aðstæður í Norður-Íshafinu en skipið verður við veiðar á hefðbundnum slóðum í Barentshafinu,  í norskri og rússneskri lögsögu.  Flotinn sem við erum með núna er reyndar ansi öflugur og ekki ósvipaður þeim togurum sem eru við veiðar á Íslandi. Þetta eru skip sem eru smíðuð í kringum 1990. Mörg flakaskipanna í Barentshafi eru til dæmis systurskip gömlu Þerneyjar sem HB Grandi átti,“ segir Sturlaugur.

Eldri skip Norebo verða seld í stað nýju skipanna sem verða enn öflugri og afkastameiri. Reiknað er með að fyrirtækið losi sig við fleiri eldri skip en sem nemur nýsmíðunum. Smíði Kapitan Sokolov hófst síðla árs 2018. Það er með svokölluðu Endurance Bow stefni sem Norebo menn kannast auðvitað við því Murmansk Trawl Fleet, sem er í eigu Norebo, keypti skip af svipaðri hönnun, ísfisktogarann Engey RE, af Brimi hf. síðastliðið sumar.   Fyrirtækið keypti einnig nýlega Skálabergið og Brimnes af sömu aðilum.

Uppistaðan í framleiðslu Norebo eru sjófrystar afurðir en þó er fyrirtækið einnig með flakavinnslu í hátæknivæddri verksmiðju í Murmansk sem búin er vinnslulínu frá Skaganum 3X og vinnslubúnaði frá Marel.

Svipuð kvótastaða og fyrir fjárfestingar

Fyrir um það bil þremur árum hrinti ríkisstjórn Vladimirs Putin af stað stórtæku endurnýjunarferli í rússneskum fiskiskipaflota og landvinnslu með svokölluðum fjárfestingakvóta. Innkölluð voru 20% alls kvóta sem var frátekinn til þess að ívilna þeim sem fjárfestu í nýjum skipum eða vinnslum. Þegar upp verður staðið mun þessi leið hafa skilað sér í fjárfestingu í veiðum og vinnslu upp á fjórða hundrað milljarða ÍSK.

Eftir fjárfestingarnar er Norebo nokkurn veginn að halda þeim kvóta sem samstæðan hafði haft fyrir þær. Útgerðarsamstæðan er að veiða nálægt 600.000 tonnum upp úr sjó á ári, jafnt uppsjávarfisk og bolfisk. Þar af eru um 90.000 tonn af þorski, tæp 25.000 tonn af ýsu og 180.000 tonn af alaskaufsa. Norebo er líka með kvóta í karfa og grálúðu og svo eru það uppsjávartegundirnar, þ.e. makríll, loðna, síld og kolmunni.

Minni birgðastaða en í fyrra

Sem fyrr greinir er Sturlaugur framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu sem er stærsta markaðssvæði fyrirtækisins. Hann segir að áhrif heimsfaraldursins á starfsemi og sölu séu minni en útlit hafi verið fyrir á fyrstu stigum hans.

„Það varð dálítið högg í byrjun apríl þegar meirihluti veitingastaða út um nánast allan heim lokuðu. En við vorum fljót að vinna okkur upp úr því. Ákveðinn hluta okkar vöru seljum við til verslanakeðja og sá markaður hefur  verið mjög sterkur allt þetta ár. Það hefur orðið mikill vöxtur í smásölunni því neysla almennings færðist frá veitingastöðunum inn á heimilin. Tæplega helmingur okkar sölu hefur verið til stórverslana og það varð ákveðinn vöxtur í því. Upp úr miðjum maí fóru veitingastaðir smám saman að opna aftur og sérstaklega fish&chips staðirnir í Bretlandi. Þar var sala á „take-away“ leyfð og síðan þá hefur salan til þessa geira verið óvenjugóð. Ástæðan er meðal annars sú að flestir aðrir veitingastaðir í Bretlandi voru lokaðir og tækifæri til þess að fara út að borða mjög takmarkaðir. Sala til fish&chips staða hefur því verið meiri en í venjulegu ári. Við erum núna að ná langleiðina upp í það að ná að selja það sem við höfum selt á undanförnum árum. Heilt yfir hefur því heimsfaraldurinn ekki haft mikil áhrif á okkar starfsemi. Til marks um þetta má nefna að birgðastaða okkar núna er minni en á sama tíma í fyrra. Þó voru birgðir okkar einnig tiltölulega lágar á þeim tíma. Þannig er staðan þótt við höfum ekkert dregið úr veiðum,“ segir Sturlaugur.

Tvíþætt hönnun

Kapitan Sokolov er 81,6 metri á lengd og 16 metra breiður. Aðalvélin er frá Wartsila, 6.100 kW. Frystigetan er 100 tonn af afurðum á sólarhring, blanda af frystum flökum og hausuðum og slægðum fiski. Rými er í lest fyrir 1.200 tonn af afurðum. Allt hráefni verður nýtt. Það sem ekki verður fryst verður brætt í fiskimjölsverksmiðju um borð eða niðursoðið í dósir, t.d. þorsklifur. Pláss er fyrir 80 manns um borð. Að öllu jöfnu verða 40-50 manns í áhöfn þegar unninn er þorskur og ýsa. Fleiri verða í áhöfn þegar alaskaufsi er unninn. Sex af tíu nýsmíðum Norebo fara á þorsk og ýsu í Barentshafi og fjögur skip á alaskaufsa í Kyrrahafi.

Alfreð Tulinius, yfirskipahönnuður og einn  af eigendum skipahönnunarfyrirtækisins Nautic, segir það vissulega mikil tímamót nú þegar fyrsta skipið í þessu tíu nýsmíða verkefni er sjósett, jafnvel þótt ennþá vanti á það brúna og ýmsan búnað og frágang.

Alfreð segir að hönnunarverkefni Nautic sé tvíþætt. Fyrri samningurinn er við Norebo um flokkunarfélagsteikningar og seinni við Severnaya Verf skipasmíðastöðina í Pétursborg um vinnuteikningar. Um 50 manns starfa á hönnunarstofu Nautic í Pétursborg og ekki vanþörf á því þegar unnið er að vinnuteikningum sem ná yfir smæstu smáatriði allt niður í minnstu skrúfur.

„Með því að vinna einnig vinnuteikningarnar eru við með eins mikla stjórn á hönnun skipsins og hægt er að hafa. En eigandinn kemur einnig inn í endanlega útkomu með vali á búnaði sem getur falið í sér frávik frá smíðalýsingu,“ segir Alfreð.

Nautic er núna að ganga frá samningum við skipasmíðastöðin um skipin fjögur sem bættust við upphaflega sex skipa samninginn. Skipin verða örlítið öðruvísi og aðallega ætluð til veiða á alaskaufsa. Því þarf að endurnýja vinnuteikningasamninga um þau fjögur skip.

„Þá eru uppi á borði hjá okkur líka samningar um smíði á fjórum línuskipum fyrir Norebo. Ég vonast til þess að gengið verði frá öllum þessum samningum í lok þessa mánaðar. Svo eru nokkur önnur verkefni framundan sem ekki er tímabært að fjalla um núna,“ segir Alfreð.