mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bandarískt skólaskip væntanlegt til Reykjavíkur

24. júní 2011 kl. 13:35

Skólaskipið Eagle

Tveir Íslendingar störfuðu á skipinu á árum áður.

Von er á bandaríska skólaskipinu USCGC Eagle WIX-327 til Reykjavíkur næstkomandi þriðjudag. Skipið tilheyrir liðsforingjaskóla bandarísku strandgæslunnar, US Coast Guard Academy. Þetta er 4 ára heilsársskóli þar sem strandgæslan menntar verðandi yfirmenn stofnunarinnar. Á veturna er háskólanám en á sumrin sigla nemendur hálft sumarið á Eagle og hálft sumarið á hefðbundnum varðskipum. 

Þess má geta að Hannes Þ. Hafstein fyrrum framkvæmdastjóri Slysavarnarfélags Íslands sigldi með skipinu árið 1949 þegar hann var í tveggja ára starfsþjálfun hjá bandarísku strandgæslunni. Einnig sigldi Ásgrímur L. Ásgrímsson, núverandi yfirmaður stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar fjögur sumur með skipinu þegar hann var liðsforingjaefni í US Coast Guard Academy frá 1983-1987.

Í ferð skipsins að þessu sinni eru 15 sjóliðsforingjar og 65 undirmenn í fastaáhöfn en auk þeirra 155 sjóliðsforingjaefni.

Skipið verður opið almenningi við Miðbakka í Reykjavík þriðjudaginn 28. júní kl. 13:00-19:00, miðvikudaginn 29. júní kl. 10:00-17:00 og fimmtudaginn 30. júní frá kl. 10:00-19:00. Áætlað er að Landhelgisgæslan og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sigli til móts við skipið á þriðjudagsmorgunn.

Sjá nánar á vef Landhelgisgæslunnar.